Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að umfjöllun fjölmiðla um innbrot í tölvu hans sé í senn „kostuleg og lýsandi fyrir nútíma umræðu um stjórnmál.“
Það sé snúið út úr aukaatriðum til þess að reyna að gera hann ótrúverðugan, og hann nefnir sérstaklega frétt RÚV þar sem talað er við tölvuöryggissérfræðing sem segir að málið sé í líkingu við vísindaskáldsögu.
Þá var hann spurður á ný hvort þetta hafi verið staðfest af „manni í ráðuneytinu“ og svaraði aftur játandi. „Þessir tæknimenn sem skoðuðu þetta fyrir mig sögðu að þetta væri einhvers konar vírus eða forrit af þessari gerð, það var hins vegar ekki hægt að sjá hversu mikið það hefði virkað.“
Þá var hann spurður hvort hann hefði ekki tilkynnt málið til lögreglu. „Nei ég gerði það nú ekki enda sko er maður ýmsu vanur úr þessu í pólitíkinni og hafði fengið þau ráð, ekki bara út af þessum stóru málum sem við var að eiga á þessum tíma heldur bara almennt að við ættum að gera ráð fyrir því ráðherrar og jafnvel þingmenn almennt, að allt sem við settum í tölvupóst væri lesið.“
Rekstrarfélagið segir engin ummerki um innbrot
Framkvæmdastjóri Rekstrarfélags stjórnarráðsins staðfesti það hins vegar í svari við fyrirspurn Kjarnans í gær að engin staðfest ummerki um innbrot hefðu fundist í tölvu Sigmundar Davíðs við skoðun. Rekstrarfélagið hefur umsjón með staðarneti Stjórnarráðsins og undir það fellur tölva forsætisráðherra. Þann 1.apríl 2016 barst félaginu beiðni frá forsætisráðherra um að skoða tölvu ráðherra vegna rökstudds gruns hans um mögulegt innbrot. Við ítarlega leit fundust ekki staðfest ummerki að innbrot hafi átt sér stað,“ segir í svari Guðmundar Halldórs Kjærnested, framkvæmdastjóra rekstrarfélagsins, við fyrirspurn Kjarnans.
Fyrr í gær hafði Vísir greint frá því að innbrot í tölvu forsætisráðherra hefði ekki verið tilkynnt til ríkislögreglustjóra, sem fer með brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.