Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrata í kosningunum í Bandaríkjunum, hefur birt vottorð frá Lisu Bardack lækni hjá CareMount Medical, þar sem stendur skýrum stöfum að Hillary sé hæf til að starfa sem forseti Bandaríkjanna. Í bréfinu segir enn fremur að hún hafi fengið sýkingu í eyra, áður en hún greindist með lungnabólgu, en hafi fengið lyf til að vinna á henni og það hafi gengið vel.
Með læknisvottorðinu vill Clinton eyða vafa um það, að hún sé ekki hæf til að starfa sem forseti Bandaríkjanna vegna heilsubrests. Frá því hún þurfti að yfirgefa minningarathöfn um árásirnar 11. september vegna lungnabólgu og ofhitnunar þá hefur verið hávær orðrómur uppi um það, að hún sé ekki við góða heilsu. Demókratar funduðu um stöðu mála, eftir að Hillary yfirgaf minningarathöfnina og fór til læknis, en fljótlega varð ljóst að hún glímdi við flensu og lungnabólgu, og þurfti á hvíld að halda. Alvarlegra var það ekki.
Donald J. Trump, andstæðingur hennar í röðum Repúblikana, hikaði ekki við að skjóta því fram í umræðuna, að Hillary væri veikburða jafnvel þó hún væri yngri en „gamlinginn“ hann sjálfur, eins og hann komst sjálfur að orði. Hillary er 68 ára gömul en Trump sjötugur.
Í bréfi frá Bardack lækni, kemur fram að hún hafi gengist undir hefðbundna læknisskoðun þar sem blóðþrýstingur var mældur og almenn heilsa könnuð. Ekkert alvarlegt hafi komið í ljós.
Hillary hefur nokkurt forskot á Trump í flestum skoðanakönnunum, nú þegar um sjö vikur eru til kosninga, en þó er jafnt á munum í mörgum ríkjum. Samkvæmt könnun CNN frá því í gær hefur Trump tekið fram úr Hillary í Ohio. Spennandi lokasprettur er framundan, og hefur Hillary sagt að hún ætli sér að hlýða læknum í þetta skiptið, hvíla lúin bein og koma tvíefld inn í lokasprettinn.