Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum, segir að Samfylkingin hafi kosið að verða fjórði framsóknarflokkurinn á Alþingi. Hinir þrír séu Framsóknarflokkurinn sjálfur, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn. Þetta hafi Samfylkingin gert þegar þingmenn hennar ákváðu að sitja hjá við afgreiðslu búvörusamninganna á Alþingi í gær. Þetta kom fram í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld. Þar sagðist hann einnig undrans að einungis 19 þingmenn hafi getað leitt eins stórt mál til lykta.
Búvörusamningarnir voru samþykktir á þingi í gær. 19 þingmenn greiddu atkvæði með þeim en sjö sögðu nei. Alls sátu 16 þingmenn hjá, sjö voru með skráða fjarvist og 14 voru fjarverandi án skýringar. Einn þeirra sem var fjarverandi án skýringar var Sigmundur Davíð.
Þeir þingmenn sem greiddu atkvæði með samningnum eru allir frá Framsóknarflokki (12 talsins) og Sjálfstæðisflokki (sjö talsins).
Líkt og kom fram í fréttaskýringu á Kjarnanum fyrr í dag eru samningarnir til tíu ára. Greiðslur úr ríkissjóði vegna samningsins nema 132 milljörðum króna á samningstímanum, eða að meðaltali 13,2 milljarðar króna á ári. Auk þess eru samningarnir tvöfalt verðtryggðir. Þ.e. þeir taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga og eru „leiðréttir“ ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs verður önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu.