Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdaráðs Evrópusambandsins, greindi frá því í ávarpi í Evrópuþinginu í gær, að Evrópusambandið stefndi að því að byggja upp frítt Wifi-samband á öllum opinberum svæðum í aðildarríkjunum á næstu fjórum árum. Þá sagðist hann einnig vonast til þess að í það minnsta ein borg í sambandinu verði búinn að innleiða opið 5G samband fyrir um alla borg, fyrir árið 2020.
Með þessum aðgerðum er stefnt að því að styrkja lífskjör fólks og einnig renna stoðum undir sífellt stækkandi heim internetsins og samfélagsmiðla. Evrópusambandið hefur þegar fjallað um nauðsyn þess að fólk hafi aðgang að góðu internetsambandi.
Evrópusambandið ætlar sér þó ekki að taka á sig allan kostnaðinn, heldur munu Evrópusambandsríkin, og einstaka borgir og sveitarfélag innan þeirra, þurfa að borga hluta af kostnaðinum. Um 120 milljónir evra eru eyrnamerktar í verkefni, eða sem nemur um 17 milljörðum króna.
Í frétt breska ríkisútvarpsins BBC er rætt við Mark Newman, greinanda hjá ConnectivityX, sem telur fjárfestingu vera alltof litla. Ef verkefnið á að ganga eftir þurfi það að vera miklu stærra í sniðum, og ítarleg áætlun með forgangsröðun uppbyggingar þurfi að liggja fyrir.
Juncker sagði í ávarpi sínu að hin starfræna veröld væri orðin lífsnauðsynleg í lífi fólks, að það væri metnaðarmál fyrir Evrópusambandið að tryggja fólki aðgang að góðu netsambandi.