Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, hefur beðist afsökunar á því að orðalag í skýrslunni „Einkavæðing bankanna hin síðari“ sé þannig að hægt sé að skilja það sem „árásir eða gagnrýni á embættismenn og sérfræðinga sem komu að málum og sinntu verkum sínum af samviskusemi“. Hann boðar einnig að orðalag skýrslunnar verði endurskoðað. „Gildishlaðin orð eða annað sem valdið getur misskilningi fjarlægt þannig að efnisleg umræða fari fram,“ segir Guðlaugur Þór í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Aldrei hafi verið ætlun meirihluta fjárlaganefndar að vega að starfsheiðri einstaklinga sem eiga ekki annað skilið en þakkir fyrir sín störf.
Fjölmargar ásakanir eru settar fram í skýrslunni. Í henni segir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og sérstaklega fjármálaráðuneytið undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, í samstarfi við embættismenn og Seðlabanka Íslands, hafi ákveðið að hefja aðför gegn neyðarlögunum í febrúar 2009 með það að markmiði að færa kröfuhöfum föllnu bankanna betri endurheimtir. Í þessari aðför var ákveðið að hundsa þau drög að stofnefnahagsreikningum nýju bankanna þriggja sem birt voru á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (FME) 14. nóvember 2008. Í skýrslunni er síðan reiknað út að ríkissjóður hafi tekið á sig 296 milljarða króna í áhættu í þágu kröfuhafa með þessum aðgerðum.
Í fréttatilkynningu vegna útkomu skýrslunnar sagði að skýrslan taki „af allan vafa um áhættu skattgreiðenda sem átti sér stað við afhendingu bankanna til kröfuhafa.[...]Ekki verður önnur ályktun dregin en að samningagerðin afi að stórum hluta gengið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum.“
Þeim ásökunum sem settar eru fram í skýrslunni hefur verið ítrekað verið hafnað af þeim einstaklingum sem þær beinast að, þeim stofnunum sem komu að málinu og í áliti sem unnið var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan.
Kjarninn fjallaði ítarlega um skýrsluna í fréttaskýringu á þriðjudag.
Vill að óháðir sérfræðingar fari yfir málið
Skýrslan er skrifuð í nafni meirihluta fjárlaganefndar en Guðlaugur Þór og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, höfðu veg og vanda að gerð hennar. Þau kynntu einnig tilurð hennar á blaðamannafundi á mánudag. Þar fékkst ekki uppgefið hver hefði skrifað skýrsluna né hverjir hefðu komið að gerð hennar. Guðlaugur Þór og Vigdís greindu hins vegar frá því að þau hafi greitt 90 þúsund króna kostnað vegna skýrslugerðarinnar úr eigin vasa. Það er fordæmalaust samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis að nefndarmenn geri slíkt.
Í stöðuuppfærslu á Facebook í dag segir Guðlaugur Þór að hann telji nauðsynlegt að óháðir sérfræðingar verði fengnir til að rannsaka allar hliðar á einkavæðingu bankanna,samninga stjórnvalda og kröfuhafa föllnu bankanna, samhliða því að upplýst verði hvernig staðið var að skuldauppgjöri einstaklinga og fyrirtækja í kjölfar hrunsins.
„Skýrsla sem meirihluti fjárlaganefndar lagði fram [Einakavæðing bankanna hin síðari og fylgiskjöl] er rökstuðningur fyrir því að slík rannsókn fari fram. Aðeins þannig verður málið upplýst og tortryggni sem fengið hefur að grafa um sig meðal almennings og forráðamanna fyrirtækja, eytt.
Umræða um skýrsluna hefur verið um form hennar en ekki efni. Þetta er miður enda ljóst að mikilvægar nýjar upplýsingar koma fram í skýrslunni og ekki síst á 140 blaðsíðum með fylgiskjölum, sem nær öll koma nú fyrir sjónir almennings í fyrsta skipti.
Við höfum fengið ábendingar um að orðalag í skýrslunni sé þannig að hægt sé að skilja það sem árásir eða gagnrýni á embættismenn og sérfræðinga sem komu að málum og sinntu verkum sínum af samviskusemi. Það var aldrei ætlun meirihluta fjárlaganefndar að vega að starfsheiðri einstaklinga sem eiga ekki annað skilið en þakkir fyrir sín störf. Það er rétt og skylt að biðjast velvirðingar á slíkum mistökum. Í þessu ljósi verður orðalag skýrslunnar endurskoðað. Gildishlaðin orð eða annað sem valdið getur misskilningi fjarlægt þannig að efnisleg umræða fari fram.“