Skýrslan var kynnt í mánudag. Hún er í öllum meginatriðum endurtekning á þeim ásökunum sem Víglundur Þorsteinsson hefur lagt fram þrívegis á undanförnum árum. Þeim ásökunum hefur verið hafnað af þeim einstaklingum sem þær beinast að, þeim stofnunum sem komu að málinu og í áliti sem unnið var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan.
Samkvæmt ásökununum ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og sérstaklega fjármálaráðuneytið undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, í samstarfi við embættismenn og Seðlabanka Íslands, að hefja aðför gegn neyðarlögunum í febrúar 2009 með það að markmiði að færa kröfuhöfum föllnu bankanna betri endurheimtir. Í þessari aðför var ákveðið að hundsa þau drög að stofnefnahagsreikningum nýju bankanna þriggja sem birt voru á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (FME) 14. nóvember 2008. Í skýrslunni er síðan reiknað út að ríkissjóður hafi tekið á sig 296 milljarða króna í áhættu í þágu kröfuhafa með þessum aðgerðum.
Kjarninn fjallaði ítarlega um skýrsluna í fréttaskýringu á þriðjudag.
Ekki vitað hver skrifaði né hverjir komu að vinnu
Skýrslan var lögð fram á fundi fjárlaganefndar í gær. Þar fór ekki fram efnisleg umræða um skýrsluna, en minnihluti hennar hefur gagnrýnt tilurð hennar harðlega. Á meðal þess sem gagnrýnt er að ekki liggur fyrir hver hafi skrifað skýrsluna nér hverjir hafi komið að vinnu hennar. Þá hafi þeir sem ásakanir hennar beinast að ekki fengið andmælarétt í málinu. Komið hefur fram að Vigdís og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, hafi greitt 90 þúsund króna kostnað vegna skýrslunnar úr eigin vasa. Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi er það einsdæmi að þingmenn geri slíkt.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt að vinnubrögðin sem viðhöfð voru við gerð hennar hafi ekki verið til þess fallin að auka virðingu Alþingis.
Víglundur Þorsteinsson skrifar einnig grein um skýrsluna í Morgunblaðið í dag þar sem hann gagnrýnir fréttaflutning og umræðu um hana. Þar segir hann að opinberast hafi „enn eina ferðina það „tvöfalda siðferði“ sem vinstri menn hér á landi og víðar starfa eftir þegar vindurinn blæs í fang þeirra. Þeir velja sér þá gjarnan þægilegri mælistikur en andstæðingunum. Hún á enn vel við dæmisagan um bjálkann og flísina!“
Sendi tölvupóst á blaðamann Stundarinnar
Stundin greindi frá því í gær að Vigdís hefði sent tölvupóst á einn blaðamanna miðilsins fyrir mistök sem átti að fara á Pál Jóhann Pálsson, þingmann Framsóknarflokksins og nefndarmann í fjárlaganefnd. Pósturinn var sendur út á þriðjudag. Í frétt Stundarinnar um póstinn segir að hann varpi ljósi á einbeittan ásetning Vigdísar til að koma í veg fyrir að þeir sem séu ásakaðir í skýrslunni fái tækifæri til að verja hendur sínar eða færa fram skýringar á gjörðum sínum.
Í tölvupóstinum segist Vigdís hafa verið „skíthrædd“ um að Steingrímur J. Sigfússon, sem sætir alvarlegustu ásökununum í skýrslu nefndarinnar, fengi skýrsluna í hendur, en til allrar hamingju hafi „þingið“ haldið trúnaði. Hún sagði jafnfrant að það hafi veri „statement“ hjá henni og Guðlaugi Þór að leggja sjálf út fyrir kostnaðinum vegna skýrslunnar.
Vigdís gagnrýndi fréttaflutning fjölmiðla af tölvupóstsendingunni harðlega á samfélagsmiðlum í gær og sagðist meðal annars upplifa að „upplifa það að RÚV standi með SJS.“ Á sama vettvangi kallaði hún stundina fjölmiðil kröfuhafa.