Stjórnendur Flugfélags Íslands kanna nú möguleikann á því að fljúga beint á milli Akureyrar og Keflavíkur utan háannatíma, en undanfarin þrjú sumur hefur flugfélagið boðið upp á slíkt flug. Þetta kemur fram á vef Túrista.
„Við erum ekki komnir með endanlega niðurstöðu í það hvort og þá hvenær við gætum hafið flug frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar á öðrum árstímum en nú er. Það er enn til skoðunar en við vonumst til að það liggi fyrir á næstu vikum,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, við Túrista.
Vefurinn greindi frá því í síðustu viku að forsvarmenn ferðamála á Norðurlöndum telji það mjög mikilvægt fyrir dreifingu ferðamanna að boðið sé upp á innanlandsferðir frá aðalflugvelli hvers lands. Þannig er það hins vegar ekki á Íslandi, ólíkt hinum Norðurlöndunum, því fyrir utan þessar sumarferðir milli Keflavíkur og Akureyrar er Keflavíkurflugvöllur aðeins millilandaflugvöllur.
Í dreifðari byggðum á hinum Norðurlöndunum geta því bæði erlendir ferðamenn og heimamenn flogið án þess að þurfa að skipta um flugvöll, eins og á Íslandi.
Skapti Örn Ólafsson upplýsingafulltrúi hjá Samtökum ferðaþjónustunnar segir að það geti falist tækifæri í því að tengja betur millilanda- og innanlandsflug, sérstaklega á veturna. „Innviðir hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu á landsbyggðinni hafa batnað og framboð á afþreyingu aukist. Það er vonandi tímaspursmál hvenær hlutirnir fara að ganga upp og framboð og eftirspurn haldist betur í hendur.“ Hann segir að Norðurland sé komið á kortið sem ákjósanlegur vetraráfangastaður og Austurland eigi mikið inni. „Það myndi því styrkja ferðaþjónustu á þessum svæðum ef betur gengi að tengja saman millilandaflug og innanlandsflug.“
Það sem af er ári hefur verið 30% aukning í fjölda erlendra ferðamanna sem nýta sér innanlandsflug, segir Skapti, en samkvæmt flugtölum frá Isavia fjölgaði farþegum á innanlandsflugvöllum um 7% fyrstu sjö mánuði ársins en um 35% á Keflavíkurflugvelli.