Í dag fer fram tvöfalt kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi og verður það sett klukkan 11:00 í Skjólbrekku í Mývatnssveit.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins er þar í framboði, og freistar þess að fá umboð til að leiða flokkinn áfram í kjördæminu. Þrír aðrir boðið sig fram í fyrsta sæti listans, þau Höskuldur Þórhallsson, Þórunn Egilsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir. Þá býður Hjálmar Bogi Hafliðason, varaþingmaður, sig fram í 2. til 4. sæti.
Kynningarblað með frambjóðendum hefur verið tekið saman. Í því segir Sigmundur Davíð að hann muni beita sér fyrir uppbyggingu í kjördæmi, ef hann fái tækifæri til þess. „Verði mér veitt umboð til að leiða framboð
Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi nú á
100 ára afmælisári flokksins mun ég í samráði
og samstarfi við flokksmenn gera það að
forgangsverkefni nýs kjörtímabils að efla
uppbyggingu um allt land. Hvort sem ég verð í
meirihluta eða minnihluta, forsætisráðherra eða
óbreyttur stjórnarandstöðuþingmaður mun ég
helga mig baráttu fyrir því að kjördæmið sem
fóstraði mig sem stjórnmálamann fái notið krafta
minna. Ég tók ákvörðun um að fara í stjórnmál
vegna þess að ég var sannfærður um að róttækra
breytinga og skynsamlegra lausna væri þörf.
Sjaldan hefur það átt jafnvel við og nú. Ég vona
að þið veitið mér tækifæri til að halda þeirri
baráttu áfram bæði á grundvelli þess árangurs
sem hefur náðst og á grundvelli einlægs vilja til
að læra af reynslunni og gera enn betur á nýju
kjörtímabili,“ segir Sigmundur Davíð í kynningarblaðinu.
Eins og kunnugt er sagði Sigmundur Davíð af sér sem forsætisráðherra í kjölfar Wintris-málsins svokallaða.
Undanfarið hafa áhrifamenn í flokknum lagt til að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra taki við sem formaður flokksins á komandi flokksþingi. Þar á meðal er Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður flokksins. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður flokksins og mótframbjóðandi Sigmundar Davíðs í Norðausturkjördæmi, er einn þeirra sem hafa sagt rétt að Sigurður Ingi taki við.
Samkvæmt umfjöllun mbl.is, þá eru átján svæðisbundin félög Framsóknarflokksins sem geti haft fulltrúa á þinginu, frá Fjallabyggð í norðri til Djúpavogs í austri.
Samkvæmt Eyþóri Elíassyni, formanni kjörstjórnar Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi eru um 370 á kjörbréfi á þinginu, að því er segir í umfjöllun mbl.is. Segir hann að svo verði að koma í ljós hversu margir mæti, en þingið fer fram á Skjólbrekku í Mývatnssveit og er sett á morgun klukkan 11.
Stærstu aðildarfélögin eru Framsóknarfélag Akureyrar með 94 fulltrúa, Framsóknarfélag Héraðs og Borgarfjarðar með 54 fulltrúa og Fjarðarbyggð með 45 fulltrúa. Önnur félög eru nokkuð minni.