Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, leiðir framboðslista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, er í öðru sæti þess lista. Páll Rafnar Þorsteinsson, heimspekingur og sonur Þorsteins Pálssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, situr í þriðja sæti listans. Frá þessu var greint í morgun. Þar með liggja efstu sæti allra framboðslista Viðreisnar fyrir komandi kosningar fyrir nema í Suðurkjördæmi.
Hanna Katrín Friðriksson, framkvæmdarstjóri heilbrigðissviðs Icepharma, mun leiða lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur, situr í öðru sæti á listanum og Dóra Sif Tynes, lögfræðingur situr í þriðja sæti. Sigríður María Egilsdóttir, sem tilkynnti í síðustu viku að hún ætlaði að vera á lista Viðreisnar, situr í fimmta sæti listans.
Þegar hafði verið greint frá því að Benedikt Jóhannsson, formaður Viðreisnar, muni leiða flokkinn í Norðvesturkjördæmi, að Gylfi Ólafsson verður í efsta sæti í Norðvesturkjördæmi og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður í fyrsta sæti í Suðvesturkjördæmi. Þá er fastlega búist við því að Jóna Sólveig Elínardóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, leiði lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.