Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður, sem kom að samningum við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna, segir það koma til greina að höfða mál vegna skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, „Einkavæðing bankanna hin síðari“. Í skýrslunni séu að finna afar grófar ærumeiðingar á hendur þeim sem stóðu að samningunum. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær.
Skýrslan var kynnt af formanni og varaformanni fjárlaganefndar Alþingis, Vigdísi Hauksdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir viku síðan. Þau sögðu skýrsluna vera unna af meirihluta fjárlaganefndar en neituðu að gefa upp hverjir nákvæmlega hefðu komið að gerð skýrslunnar. Skýrslan er að miklu leyti til samhljóða ásökunum sem Víglundur Þorsteinsson hefur haft uppi um það hvernig staðið var að samningum við kröfuhafana um afdrif föllnu bankanna.
„Ég vil segja um það að þetta er auðvitað ekkert nýtt, þessir palladómar sem þarna eru felldir, en það sem er nýtt í því að þetta er stimplað með stimpli frá einni virðulegustu stofnun samfélagsins, sem er fjárlaganefnd Alþingis,“ sagði Jóhannes Karl um skýrsluna. Hann hafi hváð þegar tilkynntur var blaðamannafundur og gefin út fréttatilkynning „þar sem aðaláhersla er lögð á afar grófar ærumeiðingar á hendur þeim sem stóðu að þessum samningum, það er talað um samningafólk og samningamenn, og þess vegna veitti ég þessu athygli og fór að kynna mér það hvernig þetta hafði borið að.“ Hann segist hafa haft samband við nefndarmenn og óskað eftir því að þeir gerðu hreint fyrir sínum dyrum um tilurð skýrslunnar.
„Ég tel hins vegar fyllsta tilefni til þess, af því að það er nú verið að tala um virðingu Alþingis og virðingu fyrir því að leikreglur séu virtar, að þetta mál verði skoðað algjörlega sérstaklega. Hvernig þetta gat gerst, að þetta plagg kæmi út með öllum þeim staðreyndavillum sem þar er að finna, með öllum þeim ómaklegu palladómum sem þar eru felldir fyrirfram.“
Jóhannes Karl segir að þingmenn séu ekki ábyrgðarlausir gagnvart því sem þeir láti frá sér í nafni þingsins. Kerfið á Íslandi sé þannig að það sé þrískipt vald. „Við höfum dómstóla sem hafa eftirlit með hinum, og það getur vel verið, svona þegar fleiri kurl koma til grafar um það hvernig þetta skjal varð til, að það sé rétt að láta dómstóla skera úr um það hvort þetta sé rétt eða rangt eða hvort þarna hafi menn verið beittir rangindum í nafni Alþingis.“
Hann sagði jafnframt að búið væri að óska eftir upplýsingum um það „hvernig þetta gat gerst að það er kynnt álit þingnefndar áður en málið kemur til umfjöllunar í nefndinni, og það er mjög alvarlegt mál og það getur vel verið að það séu engir aðrir til að svara til ábyrgðar nema þeir einstaklingar sem að því standa.“