Þingmenn Samfylkingarinnar eru oftast allra þingmanna fjarverandi þegar atkvæðagreiðslur fara fram á Alþingi. Í 28,7 prósent tilfella þegar kosið er þá eru þingmenn flokksins með óútskýrðar fjarvistir. Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur er með óútskýrðar fjarvistir í 16,6 og 16,5 prósent tilfella, Björt framtíð í 14,7 prósent, Framsóknarflokkurinn í 13,9 prósent og Píratar í 10,2 prósent. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er oftast fjarverandi við atkvæðagreiðslur en fast á hæla hans kemur Össur Skarphéðinsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins er sá stjórnarþingmaður sem oftast er fjarverandi. Þá kemur fram í úttekt blaðsins að karlkyns þingmenn séu latari við að mæta í atkvæðagreiðslur en konurnar sem sitja á þingi.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir við Fréttablaðið að niðurstaðan gefi flokknum tilefni til að fara yfir verklagið í þessum efnum og skerpa á því. Hann segir fjarvistirnar flestar eiga sér eðlilegar skýringar og tengist þingmannastarfinu að einhverju leyti. „Ef við lítum á mig til dæmis þá má væntanlega rekja nokkurn hluta þeirra til framboðs míns til formanns flokksins. Það er hluti sem fylgir starfinu. Síðan má rekja einhverjar til veikinda.[...]Það er mikilvægt að við séum alltaf á tánum og við höfum ekki verið það hvað atkvæðagreiðslur varðar. Við mættum vera duglegri að tilkynna fjarvistirnar fyrir fram,.“