Samantekt meirihluta fjárlaganefndar, „Einkavæðing bankanna hin síðari“ er ekki skýrsla í skilningi þingskapa, enda hefur hún ekki hlotið formlega meðferð í fjárlaganefnd.
Þetta sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, á þingfundi í dag. Hann segist líta svo á að málið sé enn í umfjöllun fjárlaganefndar og hafi ekki verið afgreitt úr nefndinni.
„Það er afstaða forseta að samantekt sú, sem kynnt var í fjárlaganefnd og með fréttamönnum í nafni meirihluta fjárlaganefndar, Einkavæðing bankanna hinna síðari, sé ekki skýrsla í skilningi þingskapa enda hefur samantektin ekki hlotið formlega meðferð í fjárlaganefnd í samræmi við ákvæði þingskapa. Ég lít því svo á að skýrslan sé enn til umfjöllunar í fjárlaganefnd og hafi ekki hlotið afgreiðslu nefndarinnar.“
Miklar umræður hafa skapast um þessa yfirlýsingu forseta Alþingis í þingsal. Stjórnarandstæðingar hafa krafist þess að meirihluti fjárlaganefndar biðjist afsökunar á málinu.
Eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag kemur til greina af hálfu Jóhannesar Karls Sveinssonar hæstaréttarlögmanns að málið farið fyrir dómstóla vegna mjög alvarlegra ærumeiðinga á hendur honum og fleirum í skýrslunni.