Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, segir að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Guðmundur Árnason, hafi viðhaft grafalvarlega hótun í garð sinn og annarra í símtali þeirra á milli síðastliðið föstudagskvöld. Hann segist hafa sent Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og yfirmanni Guðmundar, formlegt kvörtunarbréf vegna málsins.
Fyrr í dag var greint frá því að meirihluti fjárlaganefndar bókaði það á fundi í morgun að „þingmenn innan stjórnarmeirihluta fjárlaganefndar hafa fengið beinar hótanir um æru- og eignamissi frá háttsettum embættismanni eftir að skýrslan hafði verið kynnt.“ Eiga þeir þá við skýrsluna sem kennd er við Vigdísi Hauksdóttur, formann nefndarinnar, og kallast Einkavæðing bankanna hin síðari.
Guðmundur greindi frá því sjálfur að hann teldi að þarna væri verið að tala um hann, og að hann hefði talað við Harald um málið. „Í því samtali tjáði ég honum þá skoðun mína og fleiri að ásakanir í skýrslu sem að sögn nýtur stuðnings meirihluta nefndarinnar, þar á meðal hans, feli í sér rætnar og alvarlegar ásakanir á hendur þeim sem komu að samningum milli gömlu og nýju bankanna af hálfu ríkisins. Ég vildi ganga úr skugga um að hann áttaði sig á alvarleika slíkra ásakana og að við áskildum okkur rétt til að láta reyna á persónulega ábyrgð þeirra sem slíku héldu fram fyrir dómstólum, enda æra okkar og starfsheiður að veði,“ sagði Guðmundur.
Haraldur segir að „vegna alvarleika símtalsins hef ég leitað til umboðsmanns Alþingis eftir leiðbeiningum, upplýst forseta Alþingis um efni símtalsins og sent fjármálaráðherra, yfirmanni ráðuneytisstjórans, formlegt kvörtunarbréf.“
Í símtalinu hafi Guðmundur krafist þess að Haraldur upplýsti um afstöðu sína til skýrslunnar. „Ég benti ráðuneytisstjóranum á að nefndin ætti eftir að afgreiða málið og ég hefði ekki skrifað undir neinar ásakanir, sem ráðuneytisstjórinn taldi að fælust í áðurnefndri skýrslu.“ Haraldur segir að skilaboð ráðuneytisstjórans hafi verið skýr. „Ætlun hans um að draga til ábyrgðar þá þingmenn sem tækju þátt í afgreiðslu skýrslunnar var augljós með beinni hótun um að þeir skyldu þola æru- og eignamissi.“
Haraldur segir að símtalið og samskipti Guðmundar við sig sem alþingismann og fulltrúa í fjárlaganefnd hafi verið óviðeigandi og hótun í sinn garð og annarra grafalvarleg.
Hann hafi því að ráðleggingu umboðsmanns Alþingis sent formlegt kvörtunarbréf til ráðherra þar sem meðal annars hafi sagt: „Ummæli ráðuneytisstjórans voru ósamboðin stöðu hans og virðingu sem æðsta embættismanns fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Ég sé mig tilneyddan með bréfi þessu að leggja fram formlega kvörtun yfir framkomu ráðuneytisstjórans og jafnframt að fara fram á að farið verði yfir mál hans og brugðist við eftir atvikum í samræmi við réttindi hans og skyldur, samkvæmt viðeigandi lögum.“
Á meðan málið sé til meðferðar segir Haraldur ekki rétt að hann ræði það opinberlega.