Íslandsstofa, utanríkisráðuneytið og Samtök atvinnulífsins eru að skoða að leggja fram kröfu um ógildingu á skráningu bresku matvöruverslanakeðjunnar Iceland á vörumerkinu Iceland í ríkjum innan Evrópusambandsins. Þetta verður gert í samstarfi fyrir fyrirtækið Árnason faktor, sem sérhæfir sig í ráðgjöf vegna vörumerkjaskráningar og hugverkaréttinda. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Fyrir rúmum ellefu árum hafði Iceland-keðjan sent inn umsókn um skráningu hjá bresku og evrópsku einkaleyfisstofunni. Þá spurði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður Vinstri grænna, Geir H. Haarde, þá starfandi utanríkisráðherra, hvort hann ætlaði að bregðast við málinu með einhverjum hætti.
Fyrir nokkrum árum kom slíkt til skoðunar en þá var ákveðið að ráðast ekki í neinar aðgerðir. Nú á hins vegar að funda um það 28. september til að taka ákvarðanir um hvort stigin verði frekari skref.
Ástæðan er sú að Íslandsstofa hefur verið að skrá vörumerkið Inspired by Iceland víða erlendis. Í Fréttablaðinu segir að það hafi almennt gengið vel, en þó hafi borist andmæli þegar verið er að skrá vörumerkið fyrir vöruflokka sem skarast við þá vöruflokka sem vörumerki verslanakeðjunnar Iceland er skráð fyrir.