Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, segir að hann hafi rætt við Harald Benediktsson, þingmann og nefndarmann í fjárlaganefnd Alþingis, um skýrsluna um einkavæðingu bankanna hina síðari.
Guðmundur telur að hann sé háttsetti embættismaðurinn, sem meirihluti fjárlaganefndar bókaði í morgun að hefði hótað nefndarmönnum æru- og eignamissi eftir útkomu skýrslunnar.
Guðmundur sendi skriflegt svar til fréttastofu RÚV um málið. Þar kemur fram að hann hafi átt samtal við Harald Benediktsson síðastliðinn föstudag. „Í því samtali tjáði ég honum þá skoðun mína og fleiri að ásakanir í skýrslu sem að sögn nýtur stuðnings meirihluta nefndarinnar, þar á meðal hans, feli í sér rætnar og alvarlegar ásakanir á hendur þeim sem komu að samningum milli gömlu og nýju bankanna af hálfu ríkisins. Ég vildi ganga úr skugga um að hann áttaði sig á alvarleika slíkra ásakana og að við áskildum okkur rétt til að láta reyna á persónulega ábyrgð þeirra sem slíku héldu fram fyrir dómstólum, enda æra okkar og starfsheiður að veði. Önnur samtöl hef ég ekki átt við þingmenn um þetta mál. Sé það upplifun Haraldar að samtalið hafi falið í sér hótun af minni hálfu er hann beðinn afsökunar á því,“ segir í yfirlýsingu Guðmundar á vef RÚV.
Skýrslan var afgreidd úr fjárlaganefnd í morgun, en hún er ekki lengur sögð skýrsla meirihluta fjárlaganefndar heldur eingöngu Vigdísar Hauksdóttur, formanns nefndarinnar. Meirihluti fjárlaganefndar samþykkti að vísa skýrslunni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Bókun þingmanna meirihlutans var einnig lögð fram á fundinum en hún hljóðaði svona: „Undirritaðir þingmenn ítreka mikilvægi þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hrindi af stað rannsókn og að leynd á gögnunum er varða málið verði aflétt. Þingmenn innan stjórnarmeirihluta fjárlaganefndar hafa fengið beinar hótanir um æru- og eignamissi frá háttsettum embættismanni eftir að skýrslan hafði verið kynnt. Kvörtun vegna þess verður sett í viðeigandi farveg. Í ljósi þeirra viðbragða telja undirritaðir enn frekar mikilvægt að rannsókn fari fram,“ segir í bókun þeirra.
Þá sagði Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að nafn umrædds embættismanns yrði gert opinbert.