Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur skrifað undir búvörulögin og þar með hafa nýir búvörusamningar öðlast gildi. Undirskriftasöfnun sem hvatti Guðna Th. til að synja lögunum undirritunar og vísa þeim þess í stað í þjóðaratkvæðagreiðslu var hrint af stað eftir að lögin voru samþykkt á Alþingi. Til stóð að safna 15 þúsund undirskriftum en í gær voru þær undir 4.500. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Búvörusamningarnir voru samþykktir á Alþingi 13. september. Þeir munu kosta ríkissjóð yfir 130 milljarða króna á næstu tíu árum hið minnsta. Sú tala gæti hækkað þar sem samningarnir eru tvöfalt verðtryggðir. Samningarnir hafa verið harðlega gagnrýndir frá því að þeir voru undirritaðir í febrúar af núverandi leiðtogum ríkisstjórnarinnar. Gagnrýnin snýr helst að því að hagsmunir bænda og þeirra fyrirtækja sem njóta góðs að landbúnaðarkerfi Íslendinga hafi verið teknir fram yfir hagsmuni neytenda og skattgreiðenda við gerð þeirra, sérstaklega vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir þeim og að þeir eiga að gilda til tíu ára, eða í tvö og hálft kjörtímabil.
Þrátt fyrir háværa andstöðu og stór orð sem látin hafa verið falla í ræðustólum Alþingis um þá voru samningarnir samþykktir. En einungis 19 þingmenn, eða 30 prósent allra þingmanna, greiddu atkvæði með þeim. Sjö sögðu nei en aðrir sátu hjá eða voru ekki viðstaddir þessa gríðarlega mikilvægu og bindandi atkvæðagreiðslu sem mun móta eitt af lykilkerfum íslensks samfélags, hið ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi, næsta áratuginn.
Endurskoðunarákvæði var sett inn í samninganna eftir aðra umræðu sem segir að skipa eigi samráðshóp um endurskoðun á samningunum. Hann á að skila niðurstöðu sinni eftir þrjú ár, eða fyrir árslok 2019. Endurskoðunin mun hins vegar ekki öðlast gildi nema að bændur samþykki hana í atkvæðagreiðslu. Hafni þeir henni mun tíu ára samningurinn gilda áfram.