Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að hann hafi aldrei átt aflandsfélag. Það hafi aðeins verið konan hans sem átti félag á Tortóla, sem hann segir reyndar að sé ekki skattaskjól, því konan hans hafi ekki geymt peninga í skattaskjóli.
Þetta kom fram í upphafi kosningaþáttar sem nú er í beinni útsendingu á RÚV.
Sigmundur Davíð kannaðist ekki heldur við það að verið væri að kjósa snemma vegna hans og Wintris-málsins. Hann sagðist hafa orðið fyrir ótrúlegri árás, sem hafi komið á daginn að hafi verið „tilefnislaus og ótrúlega gróf“.
Fréttamenn spurðu hann ítrekað hvort honum þætti ekkert siðferðislega ámælisvert við að eiga félag í skattaskjóli og hvort honum þætti ekki tilefni til að biðjast afsökunar á málinu. Hann sagðist geta beðist afsökunar fyrir margt bæði sem einstaklingur og stjórnmálamaður, en „ég get ekki beðist afsökunar á því hvernig ákveðnir aðilar, meðal annars á vegum ykkar stofnunar, gengu fram í málinu.“
Átti Wintris þegar það lýsti kröfum í bú bankanna
Greint var frá því í Kastljósþætti í byrjun apríl að Sigmundur Davíð var skráður eigandi félagsins Wintris Inc. þegar það lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna þriggja. Þar kom einnig fram að hann hefði selt helmingshlut sinn í félaginu til eiginkonu sinnar á einn bandaríkjadal 31. desember 2009. Engar upplýsingar þurfti að gefa upp um félagið þar sem kaupin fóru fram fyrir áramótin, því ný lög tóku gildi 2010.
Félagið Wintris er skráð á Tortóla, sem er þekkt skattaskjól og meðal annars skilgreint sem slíkt af íslenskum yfirvöldum.