Það var ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að bjóða Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands, aðstoð og þjónustu vegna ýmissa verkefna sem áfram verða á hans borði. Ákvörðunin á sér fordæmi því Vigdís Finnbogadóttir fékk einnig tímabundna aðstoð af hálfu stjórnvalda þegar hún lét af forsetastörfum.
Sú aðstoð sem Ólafur Ragnar mun þiggja felst í því að starfsmaður utanríkisráðuneytisins mun sinna verkefnum fyrir Ólaf Ragnar í allt að 50 prósent starfi. Áætluð útgjöld vegna þessa eru tíu milljónir króna á árunum 2016 og 2017. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem kynnt var í vikunni.
Mun m.a. sinna loftlags- og orkumálum
Utanríkisráðuneytið segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að ákveðið hafi verið að vista þetta starf í ráðuneytinu vegna alþjóðatengsla. Starfsmaður sem utanríkisráðuneytið leggur til verður tengiliður vegna hluta þeirra verkefna sem Ólafur Ragnar kemur til með að sinna, þar með talið loftlags- og orkumálum. Viðkomandi starfsmaður mun einnig sinna fyrirspurnum, boðum og öðru sem stjórnvöldum berast en beinast að þjóðhöfðingjanum fyrrverandi.
Í svari utanríkisráðuneytisins er bent á að ákvörðunin eigi sér fordæmi. Vigdís Finnbogadóttir hafi einnig fengið tímabundna aðstoð af hálfu stjórnvalda eftir að hún lét af embætti árið 1996.
Ólafur Ragnar lét af embætti í sumar eftir að hafa setið á forsetastóli í tvo áratugi. Við embætti forseta Íslands tók Guðni Th. Jóhannesson.