Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að fjárframlög til Útlendingastofnunar hafi aukist vegna fjölgunar hælisleitenda hér á landi og fjölgun hælisleitenda. Hann sagði á Alþingi í morgun að fyrir sömu fjárhæðir og fara í að standa straum af kostnaði við hælisleitendur væri hægt að halda úti skurðstofu á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum.
„Hælisleitendur er annar flokkur flóttamanna sem stöðugt sækir til landsins og er að mestu samansettur af ungum karlmönnum sem koma hingað vegabréfalausir. Í nýsamþykktum lögum um útlendinga eru skilaboð Alþingis skýr til þessa hóps og eru að skila sér,“ sagði Ásmundur og talaði svo um mikla fjölgun hælisleitenda hér á landi.
Hann sagði dvalargjöld hælisleitenda sem ekki fái úrlausn sinna mála vera 234 þúsund krónur á mánuði á meðan lágmarksellilífeyrir væri 212 þúsund krónur. Þegar hann sagði þetta hrópaði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, „skammastu þín“ á Ásmund.
Ásmundur sagði 1200 milljónir samtals fara til Útlendingastofnunar vegna hælisleitenda. „Það sama og myndi kosta að reka skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum en þar er enga skurðstofu eða fæðingarhjálp að hafa,“ sagði Ásmundur. Hann gagnrýndi að lokum útlendingalögin nýju og sagði Íslendinga ekki læra af reynslu annarra ríkja.
Bæði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri-grænna, og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, komu í ræðustól á eftir Ásmundi og gagnrýndu hann harðlega. „Maður spyr sig hvaða tilgangi á svona málflutningur að þjóna?“ spurði Steingrímur. „Er þetta nýi talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki?“
Birgitta sagði engan málflutning eins ömurlegan og þann að stilla saman tveimur hópum samfélagsins gegn hvorum öðrum. „Hans málflutningur er nákvæmlega eins og málflutningur þeirra sem vildu ekki taka á móti gyðingum í neyð,“ sagði Birgitta og bætti við að henni væri „svo stórkostlega misboðið“ vegna málflutnings Ásmundar. Hún spurði hvort aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru sammála þessum málflutningi.