Þingflokksfundi Framsóknarflokksins, sem hófst klukkan 13 í dag, er lokið. Í samtali við mbl.is að honum loknum sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að hann meti stöðu sína innan þingflokksins og flokksins góða. „Fundurinn var ekki til þess ætlaður að kveða upp um forystu, flokksþing gerir það,“ sagði Sigmundur Davíð við mbl.is.
Willum Þór Þórsson, þingmaður flokksins, sagði í samtali við Vísi.is að allur þingflokkur Framsóknarflokksins standi einhuga á bakvið Sigmund Davíð. Willum Þór sagði þó einnig að það væri mikilvægt að fram myndi fara formannskosning á komandi flokksþingi Framsóknarflokksins, sem fram fer í byrjun október, og að hann gæti hugsað sér að kjósa Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra, í slíkri kosningu.
Á fundinum var staða Sigmundar Davíðs sem formanns flokksins rædd. Í fréttum RÚV í hádeginu kom fram að mikil óánægja væri með ástandið í forystu flokksins innan raða þingflokksins. Sérstaklega væri óánægja með framgöngu Sigmundar Davíðs að undanförnu og það lága fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í skoðanakönnunum, þar sem fylgið mælist um tíu prósent.