Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknaflokksins og forsætisráðherra, ætlar að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sitjandi formanni flokksins, á flokksþingi í byrjun október.
Sigurður Ingi segist hafa tekið ákvörðun sína vegna þeirrar ólgu sem ríki innan Framsóknarflokksins og í kringum forystu flokkins. „Ég tel að það sé eðlilegast að leysa úr slíkum ágreiningi með lýðræðislegri niðurstöðu,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali í kvöldfréttum RÚV.
Sigmundur Davíð sagði í samtali við fjölmiðla eftir langan fund í þingflokki Framsóknarflokksins í dag að hann teldi stöðu sína sterka í aðdraganda flokksþingsins. Sigurður Ingi Jóhannsson gat ekki setið allan þingflokksfundinn því hann sinnti embættisskyldum forsætisráðherra á Akureyri síðdegis.
„Fundurinn var ekki til þess ætlaður að kveða upp um forystu, flokksþing gerir það,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars við mbl.is. Áður hafði Willum Þór Þórsson, þingmaður flokksins, sagt í samtali við Vísi.is að allur þingflokkur Framsóknarflokksins standi einhuga á bakvið Sigmund Davíð. Willum Þór sagði þó einnig að það væri mikilvægt að fram myndi fara formannskosning á komandi flokksþingi.
Í fréttum RÚV í hádeginu kom fram að mikil óánægja væri með ástandið í forystu flokksins innan raða þingflokksins. Sérstaklega væri óánægja með framgöngu Sigmundar Davíðs að undanförnu og það lága fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í skoðanakönnunum, þar sem fylgið mælist um tíu prósent.