Fæstir þingmenn Framsóknarflokksins treysta sér til að lýsa yfir stuðningi við annað hvort Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra eða Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, vegna fyrirliggjandi formannskjörs sem fram mun fara á flokksþingi í byrjun október. Willum Þór Þórsson, þingmaður flokksins, segir að það sé óróleiki og að þingflokkur Framsóknar hafi talað opinskátt um það. „Það eru ekki allir öruggir með, eftir það sem á undan hefur gengið, að Sigmundur Davíð sé óskoraður leiðtogi.“ Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður Ingi lýsti því yfir í kvöldfréttum RÚV í gær að hann ætlaði að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð á flokksþinginu. Hann tók ákvörðun sína vegna þess óróleika sem verið hefur í kringum forystu flokksins. Tilkynning Sigurðar Inga kom í kjölfar þingflokksfundar Framsóknarflokksins sem boðað var til í gær með nær engum fyrirvara og stóð yfir í á fjórða klukkutíma. Samkvæmt heimildum Kjarnans voru þar rædd ýmis atriði tengd Sigmundi Davíð sem þingflokkurinn var ósáttur við. Flest tengdust þau yfirlýsingum og gjörðum hans í kjölfar Wintris-málsins og eftir endurkomu hans í stjórnmál eftir leyfi síðsumars. Þá var líka óánægja með það að Sigmundur Davíð hefur lítið sem ekkert rætt hið svokallaða Wintris-mál við þingflokkinn frá því að það kom upp í byrjun apríl, og leiddi til þess að hann sagði af sér sem forsætisráðherra.
Frammistaða Sigmundar Davíð í fyrsta leiðtogaumræðuþætti RÚV, sem fram fór á fimmtudagskvöld, olli líka mörgum samflokksmönnum hans áhyggjum. Innan Framsóknar telja margir einboðið að kosningabarátta flokksins muni hverfast um Sigmund Davíð og aflandsfélagamál hans verði hann áfram formaður. Þess vegna hafa margir skorað á Sigurð Inga að bjóða sig fram gegn honum.
Búist hafði verið við framboðsyfirlýsingu Sigurðar Inga frá því að hann steig í pontu á miðstjórnarfundi á Akureyri fyrr í þessum mánuði og lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að sækjast eftir því að sitja áfram sem varaformaður vegna erfiðleika í samskiptum við forystu flokksins. Þar átti hann sérstaklega við samskipti sín og Sigmundar Davíðs.
Enginn þingmaður - en Framsóknarflokkurinn hefur 19 slíka - hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við formannsframboð Sigurðar Inga. Það hefur hins vegar Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður flokksins, gert og Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, dró formannsframboð sitt til baka í gær. Hann segir við Morgunblaðið að hann styðji Sigurð Inga heilshugar.
Nokkrir hafa hins vegar lýst yfir stuðningi við Sigmund Davíð. Þar á meðal er Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, sem er að íhuga varaformannsframboð. Hún hefur lengi verið í nánasta samstarfsmannahring Sigmundar Davíðs og á meðal hans helstu trúnaðarmanna í stjórnmálum. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur einnig lýst yfir skilyrðislausum stuðningi við sitjandi formann. Þá hefur Vigdís Hauksdóttir, fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, sagt að hún eigi von á stórsigri Sigmundar Davíðs. Hún sagði við mbl.is í gær að flokkurinn hafi „einfaldlega ekki efni á því að fórna sínum besta manni í einhverjum svona innanhússvígum. Sigmundur Davíð er mjög verðmætur fyrir íslenska þjóð með sína framtíðarsýn og heildaryfirsýn, bæði á lands- og heimsmál.“