Eygló Harðardóttir, ritari Framsóknarflokksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, ætlar að bjóða sig fram til varaformanns flokksins ef Sigurður Ingi Jóhannsson verður kjörinn formaður. Þetta tilkynnti hún í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Þar segir Eygló: „Framsóknarflokkurinn hefur gengið í gegnum erfiða tíma á síðustu vikum og mánuðum. Fjölmargir flokksmenn hafa kallað eftir breytingum á forystu flokksins og hefur því kalli nú verið svarað. Eftir vandlega íhugun hef ég tekið þá ákvörðun að verði nýr formaður kjörinn á flokksþinginu mun ég bjóða mig fram sem varaformaður Framsóknarflokksins.“
Sigurður Ingi tilkynnti í gær að hann ætlaði að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sitjandi formanni, á flokksinsþingi í byrjun október. Hann sagði í Vikulokunum á Rás 1 í morgun að hann hefði kosið að Sigmundur Davíð skýrði aflandsfélagamál sín og eftirmál þeirra með öðrum hætti en hann hefði gert. Hann segir skiptar skoðanir innan flokksins hvort að Sigmundi Davið hafi tekist að endurreisa traust sitt á meðal Framsóknarmanna og hafnar því að hafa lofað Sigmundi Davíð að bjóða sig ekki fram gegn honum.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur einnig sagt að hún íhugi að bjóða sig fram til varaformanns.