Þingflokkur Framsóknarflokksins var búinn að taka ákvörðun um að setja Sigmund Davíð Gunnlaugsson af sem forsætisráðherra á þingflokksfundi 5. apríl síðastliðinn, áður en að formaðurinn kom á fundinn. Þingflokkurinn var búinn að taka ákvörðun um að biðja varaformann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, og þingflokksformanninn, Ásmund Einar Daðason, um að fara til Sjálfstæðisflokksins og biðja um áframhaldandi stjórnarsamstarf, en setja forsætisráðherrann af. Þetta kom fram í viðtali við Sigurð Inga í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
Ástæðan var trúnaðarbrestur milli þingflokksins og Sigmundar Davíðs vegna Wintris-málsins og eftirmála þess. Sigmundur Davíð kom síðar til fundarins en aðrir þingmenn, en hann hafði m.a. farið til Bessastaða til að sækjast eftir þingrofsheimild fyrr sama dag án samráðs við þingflokkinn. Þegar Sigmundur Davíð kom á fundinn ræddi Sigurður Ingi einslega við hann og sagði honum frá stöðunni og að forsætisráðherrann væri búinn að missa stuðning þingflokksins. Síðan fóru þeir saman inn á fund þingflokksins og 10-15 mínútum síðar leggur Sigmundur Davíð sjálfur fram sömu tillögu og þingflokkurinn hafði þegar samþykkt áður en til atkvæðagreiðslu kæmi. Hún var samþykkt. Opinberlega var greint frá málinu á þann veg að Sigmundur Davíð hefði sjálfur lagt fram tillögu um að stíga til hliðar, en ekkert sagt frá því að þingflokkurinn hafi verið búinn að taka þá ákvörðun fyrir hann.
Erfitt að vera með aftursætisbílstjóra
Sigurður Ingi segir að hann og Sigmundur Davíð hafi síðan fundað aftur tveir saman og samið þá ályktun sem síðar var tilkynnt almenningi. Sigmundur Davíð hefur sagt að Sigurður Ingi hafi á þeim fundi lofað honum að halda sér upplýstum og að bjóða sig ekki fram gegn honum sem formaður. Sigurður Ingi segir þetta ekki að öllu leyti rétt.
Þegar Sigurður Ingi hafi verið kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 2013 hafi ýmsir haft samband við hann og sagt að samband hans við Sigmund Davíð myndi nú breytast. Hann myndi fara að líta á Sigurð Inga sem ógn og líklegan kandídat til að keppa við hann. Þá hafi þeir sest niður og Sigurður Ingi sagt formanni sínum að hann hefði engan hug á að keppa við hann um formannsembættið. Síðan hafi hins vegar gríðarlega mikið breyst. Sigurður Ingi segir Sigmund Davíð vera að vísa í þennan fund þegar hann segist hafa loforð um að varaformaðurinn ætli ekki gegn honum.
Á þriðjudeginum í apríl, áður en Sigmundur Davíð sagði af sér, hafi hann sagt formanninum að það væri sjálfsagt að leyfa honum að fylgjast með málum. Það hafi hann gert þótt að hann hefði haft áhyggjur af því að vera með „aftursætisbílstjóra“. Það hafi hins vegar ekki gefist tími til þess að þeir tveir og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gætu sest niður þrír. „Menn voru ýmist að taka einhver frí, komast út úr argaþrasinu og jafna sig,“ segir Sigurður Ingi.
Vildi gefa Sigmundi Davíð svigrúm
Sigurður Ingi tilkynnti á föstudag að hann ætlaði að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins gegn Sigmundi Davíð. Við það var ágreiningur og ólga sem verið hefur innan flokksins endanlega opinberaður. Sigmundur Davíð hefur brugðist illa við framboði Sigurðar Inga og sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hann hefði svikið sig.
Sigurður Ingi segir að hann hafi viljað gefa Sigmundi Davíð svigrúm til að vinna til baka traust og trúverðugleika eftir Wintris-málið, þrátt fyrir að mjög skiptar skoðanir hafi verið innan Framsóknarflokksins um hvort að Sigmundur Davíð ætti að víkja sem formaður líka. Hann vildi ekki að það yrðu til fylkingar á bak við sig gegn Sigmundi Davíð. Þess vegna varði Sigurður Ingi Sigmund Davíð grimmilega á opinberum vettvangi næstu mánuðina, þrátt fyrir skammir vina, flokksmanna og ýmissa annarra.
Þegar liðið hafi á sumarið og sérstaklega eftir að Sigmundur Davíð sendi bréf á flokksmenn í lok júlí til að tilkynna um endurkomu sína, sem margir túlkuðu sem gagnrýni á ríkisstjórnina og Sigurð Inga, hafi orðið breyting á afstöðu margra flokksmanna. Sigmundi Davíð hafði ekki tekist að endurvinna traustið að þeirra mat. Nú séu þessar fylkingar komnar upp á yfirborðið og því sé heiðarlegast að kjósa á milli manna á flokksþingi, sem fram fer næstu helgi.
Sigurður Ingi sagði í lok viðtalsins að hann hefði rætt við Sigmund Davíð að það hefði vantað auðmýkt og afsökunarbeiðni í viðbrögð hans við Wintris-málinu. Það væri mikilvægur eiginleiki í pólitík að gera beðist afsökunar ef menn geri mistök jafnvel þótt að þeir geri ekkert af sér.