Tvær vefsíður sem settar hafa verið upp til stuðnings Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, eru skráðar á fjölmiðlafyrirtækið Forystu ehf. sem rekur fjölmiðilinn Veggurinn.is. Síðurnar tvær, Islandiallt.is og Panamaskjolin.is, voru skráðar annars vegar í lok júlí og hins vegar í lok ágúst. Önnur, Islandiallt.is, birtir jákvæðar færslur um stjórnmálamanninn Sigmund Davíð. Á vefnum kemur fram að hann hafi verið „settur saman og rekinn af hópi einstaklinga úr ýmsum áttum með ólíkar stjórnmálaskoðanir sem eiga það sameiginlegt að vera stuðningsmenn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar“.
Hin, Panamaskjolin.is, fjallar um skýringar Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, á Wintris-málinu svokallaða. Á undirsíðu vefsins segir að um staðreyndir um aðkomu Sigmundar Davíðs að málinu sé að ræða. „Efni síðunnar er unnið upp úr þeim upplýsingum sem fram hafa komið um málið undanfarna mánuði, bæði frá Sigmundi og Önnu sjálfum, frá skattyfirvöldum, umboðsmanni Alþingis, endurskoðendum, fjölmiðlum og fleiri aðilum.
Efnið er sett fram í formi svara við algengum spurningum í þeirri viðleitni að það reynist einfaldara aflestrar. Vefnum er viðhaldið af stuðningsmönnum Sigmundar og Önnu“.
Mikið af því efni sem birtist um stjórnmál á fjölmiðlinum Veggurinn.is er líka til stuðnings málstaðar Sigmundar Davíðs í Wintris-málinu. Í nýlegum pistli sem birtist þar er til að mynda spurt hvers vegna kjósendur ættu að verðlauna Framsóknarflokkinn fyrir að fella Sigmund Davíð. Þeirri spurningu er svarað með eftirfarandi hætti: „Andskotar Sigmundar Davíðs innan flokks vilja nefnilega eiga heiðurinn af öllum afrekum hans undanfarin ár en drepa hann sjálfan. Þeir vilja eiga gróðann af aflanum en fleygja skipstjóranum sem veiddi fyrir borð.“
Skráður fjölmiðill
Forysta ehf. er skráð fjölmiðlafyrirtæki hjá Fjölmiðlanefnd vegna reksturs fréttavefsins Veggurinn.is. Sá miðill hóf að birta fréttir í nóvember í fyrra og hefur þá ritstjórnarstefnu „að miðla fréttum í þeim tilgangi að upplýsa og fræða.“
Ritstjóri Veggsins er Viðar Garðarsson, viðskiptafræðingur og markaðsráðgjafi, og hann er einnig skráður ábyrgðarmaður Forystu ehf. á heimasíðu fjölmiðlanefndar. Eigandi félagsins er hins vegar Ólöf Sigurgeirsdóttir, eiginkona Viðars. Ekki kemur fram á síðunum Íslandiallt.is og Panamaskjolin.is hverjir það eru sem setji efni inn á þær síður eða hver ábyrgðarmaður þeirra er.
Viðar komst í fréttirnar í desember á síðasta ári vegna ráðgjafastarfa sinna fyrir Norðurál. Mikil átök stóðu þá yfir vegna endursamningaviðræðna Landsvirkjunar og fyrirtækisins en orkusölusamningur til álversins í Grundartanga átti að renna út 2019. Landsvirkjun vildi hækka verðið, enda var gildandi samningur einn sá hagstæðasti fyrir orkukaupanda í stóriðju sem gerður hefur verið hérlendis.
Ráðgjafar Norðuráls
17. desember boðaði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, til blaðamannafundar og kom þessari skoðun mjög skýrt á framfæri. Í máli hans kom einnig fram að hann teldi Norðurál, og eigendur þess, vera að beita öllum mögulegum meðulum til að halda verðinu til sín sem lægstu.
Aðspurður um hvað það væru sem stjórnendur Norðuráls væri að gera sagði Hörður það vera ljóst, og fullkomlega eðlilegt, að þeir færu víða í samfélaginu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Auk þess sagði Hörður: „Það er hins vegar alveg rétt að það hafa komið upp hópar manna sem hafa áður ekki tengst orkuumræðu inn í umræðuna. Þeir hafa verið kynntir í viðtölum sem ráðgjafar Norðuráls.“
Þessi hópur sem Hörður talar um var leiddur af Viðar Garðarssyni, sem hafði blandað sér af miklu afli í umræður um orkumál vikurnar á undan. Viðar var meðal annars á meðal þeirra sem héldu úti vettvangnum „Auðlindirnar okkar“ á Facebook og skrifaði pistla á mbl.is um orkumál. Fjölmiðillinn Veggurinn sem hann ritstýrir var þá einnig nýbyrjaður göngu sína.
Í skrifum Viðars og annarra á þessum síðum var talað fyrir lægra orkuverði til stóriðju, lengri orkusölusamningum og gegn lagningu sæstrengs til Bretlands. Þá var Viðar til viðtals í fréttum Stöðvar 2 í byrjun desember 2015. Í kynningu þeirrar fréttar kom fram að Viðar hafi unnið fyrir Norðurál. Í þeirri frétt sagði Viðar að hótun Rio Tinto um að loka álverinu í Straumsvík hafi verið sett fram vegna þungs reksturs, sem megi rekja til of hás orkuverðs.