Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segist ekki kannast við að þingflokkur Framsóknarflokksins hafi ákveðið að setja Sigmund Davíð Gunnlaugsson af sem forsætisráðherra 5. apríl síðastliðinn. Sigurður Ingi Jóhannsson, sem tók við embætti forsætisráðherra í kjölfarið, greindi frá því í viðtali við útvarpsþáttinn Sprengisand fyrr í dag að þingflokkurinn hefði tekið slíka ákvörðun vegna trúnaðarbrests í kjölfar Wintris-málsins. Vigdís segir í stöðuuppfærslu á Facebook að henni hafi „sem betur fer haldið utan við þessa ógeðslegu aðför - nú verður Sigurður Ingi að stíga fram og upplýsa hvaða þingmenn sátu á svikráð um við formann flokksins - það var í það minnsta ekki allur þingflokkurinn“.
Á mbl.is er haft eftir Vigdísi að hún hafi eiginlega ekki vitað hvað hafi verið um að vera á þingflokksfundinum í apríl og að hana vanti enn mörg púsluspil til að átta sig á því hvað hafi gerst þennan dag. Augljóslega hafi eitthvað átt sér stað bakvið tjöldin. Þingflokkurinn hafi ekki verið búinn að ákveða neitt um afdrif Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra, líkt og Sigurður Ingi hefur haldið fram. „Þetta voru einhverjir aðilar í kringum hann sem voru búnir að ákveða að atburðarásin yrði svona.“
Vigdís segir að málið sé „súrt.“ Það sé fullt af „brigslum, svikum og óheiðarleika. En ég meina, ef menn vilja ekki að flokkurinn verði hundrað ára, þá er þetta besta leiðin til þess. Það er bara þannig. Og þá ber núverandi varaformaður flokksins fulla ábyrgð á því.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, spyr Vigdísi í ummælakerfi hennar hvort hún hafi ekki verið á fundinum. Á eigin síðu segir Silja Dögg að þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins sem síðar varð forsætisráðherra, hafi mætt á þingflokksfundinn sem haldinn var 5. apríl, daginn sem Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra, hafi þingflokkurinn verið búinn „að taka ákvörðun um að setja forsætisráðherra af og leita á fund Sjálfstæðisflokksins um áframhaldandi samstarf en Sigurður fékk tækifæri til að setja Sigmund inn í þróun mála þegar síðarnefndi kom til baka frá Bessastöðum.“
Sagði þingflokkinn hafa þegar samþykkt vantraust
Sigurður Ingi var sem fyrr segir í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Þar sagði hann að þingflokkur Framsóknarflokksins hafi verið búinn að taka ákvörðun um að setja Sigmund Davíð Gunnlaugsson af sem forsætisráðherra á þingflokksfundi 5. apríl síðastliðinn, áður en að formaðurinn kom á fundinn. Þingflokkurinn var búinn að taka ákvörðun um að biðja varaformann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, og þingflokksformanninn, Ásmund Einar Daðason, um að fara til Sjálfstæðisflokksins og biðja um áframhaldandi stjórnarsamstarf, en setja forsætisráðherrann af.
Ástæðan var trúnaðarbrestur milli þingflokksins og Sigmundar Davíðs vegna Wintris-málsins og eftirmála þess. Sigmundur Davíð kom síðar til fundarins en aðrir þingmenn, en hann hafði m.a. farið til Bessastaða til að sækjast eftir þingrofsheimild fyrr sama dag án samráðs við þingflokkinn. Þegar Sigmundur Davíð kom á fundinn ræddi Sigurður Ingi, að eigin sögn, einslega við hann og sagði honum frá stöðunni og að forsætisráðherrann væri búinn að missa stuðning þingflokksins. Síðan fóru þeir saman inn á fund þingflokksins og 10-15 mínútum síðar lagði Sigmundur Davíð sjálfur fram sömu tillögu og þingflokkurinn hafði þegar samþykkt áður en til atkvæðagreiðslu kæmi. Hún var samþykkt. Opinberlega var greint frá málinu á þann veg að Sigmundur Davíð hefði sjálfur lagt fram tillögu um að stíga til hliðar, en ekkert sagt frá því að þingflokkurinn hafi verið búinn að taka þá ákvörðun fyrir hann.