Meirihluti Íslendinga er mótfallinn búvörusamningum, samkvæmt nýrri könnun frá MMR. 62,4% svarenda sögðust vera andvígir búvörusamningnum en 16,3% sögðust vera fylgjandi honum. 21,3% eru hvorki fylgjandi né andvíg samningnum.
Töluverður munur var á afstöðu fólks gagnvart búvörusamningnum eftir aldri. Eldri aldurshópar voru líklegri til að vera fylgjandi búvörusamningunum, til dæmis sögðust 31% þeirra sem eru 68 ára og eldri vera fylgjandi en aðeins átta prósent þeirra sem eru 29 ára og yngri.
Búseta hafði líka mikið að segja, en 28% fólks á landsbyggðinni sögðust fylgjandi en aðeins 10 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Stuðningsfólk Framsóknarflokksins var langlíklegast til að vera fylgjandi samningunum, en 55% þeirra kjósenda voru fylgjandi honum. Það er eini kjósendahópurinn þar sem er meirihluti fylgjandi samningnum. Þau sem styðja Samfylkingu, Bjarta framtíð, Pírata og Viðreisn voru ólíklegust til að vera fylgjandi, og yfir 75% kjósenda þessara flokka sögðust andvíg. Hjá Sjálfstæðisflokknum eru 22% fylgjandi samningnum og 23% hjá Vinstri grænum.