Stjórnvöld gera ráð fyrir því að um 2.300 íbúðir verði byggðar á næstu fjórum árum í nýju almennu íbúðakerfi, sem mun kallast Leiguheimili. Leiguheimilin byggja á nýjum lögum um almennar íbúðir, og er kerfið gert að danskri fyrirmynd. Kerfið var kynnt fyrir byggingaraðilum á Grand hótel í morgun, og segir í tilkynningu að fullt hafi verið út úr dyrum.
Gert er ráð fyrir því að þessar ódýru leiguíbúðir verði 20 til 30 prósentum ódýrari en markaðsverð á leigumarkaði er í dag. Skilyrði er fyrir því að íbúðirnar séu leigðar til fólks með meðaltekjur og undir, en það má ekki segja íbúum upp leigunni þó að tekjur heimilisins fari yfir hámarkið á meðan þeir eru íbúar þar. Tekjumörkin fyrir einstakling eru ríflega 395 þúsund krónur á mánuði, en 554 þúsund fyrir pör. Fyrir hvert barn hækka mörkin um tæplega hundrað þúsund krónur.
Íbúðalánasjóður á að halda utan um þetta nýja kerfi, sem er ekki hluti af félagslega húsnæðiskerfinu. Sjálfseignastofnanir, sveitarfélög og lögaðilar munu geta reist ódýrar leiguíbúðir í þessum tilgangi og fengið 30% stofnframlag frá ríki og sveitarfélögum til þess. Ríkið mun styðja um 18% og sveitarfélög 12%, og skilyrði fyrir stuðningnum verður að leigt sé út til fólks með meðaltekjur eða lægri tekjur.
ASÍ og BSRB hafa þegar stofnað Almenna íbúðafélagið, sem ætlar að byggja slíkar íbúðir. Samkvæmt því sem fram kemur í upplýsingum frá Íbúðalánasjóði þá mun 45 fermetra íbúð á vegum ASÍ kosta um 100 þúsund krónur á mánuði, eða 69 þúsund krónur eftir greiðslu húsnæðisbóta. Þetta verði bylting fyrir fólk á leigumarkaði.
Íbúðalánasjóður hefur þegar auglýst og fengið umsóknir frá sveitarfélögum og húsnæðissjálfseignarstofnunum, en verja á einum og hálfum milljarði króna í stofnframlög ríkisins vegna þessa máls á þessu ári.