Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 7,9 prósent á milli áranna 2014 og 2015. Ráðstöfunartekjur heimila jukust um 10,8 prósent og ráðstöfunartekjur á mann um 9,6 prósent. Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Hagstofu Íslands. Útreikningarnir byggja að mestu á skattframtölum einstaklinga en leitast var við a ðlaga þær að uppgjöri þjóðhagsreikninga þar sem við átti.
Ráðstöfunartekjur heimilanna eru samtala launatekna, eignatekna, tilfærslutekna og reiknaðs rekstrarafgangs einstaklingsfyrirtækja en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.
Í frétt Hagstofunnar segir: „Samhliða birtingu talna fyrir árið 2015 hafa niðurstöður fyrri ára verið að hluta til endurskoðaðar. Megin endurskoðunin kemur fram í útreikningum á iðgjaldagreiðslum heimila til lífeyrissjóða yfir tímabilið 2001-2014. Í áður birtum tölum höfðu iðgjöld til séreigna-lífeyrissjóða verið að hluta til tvítalin og hefur sú villa nú verið leiðrétt. Einnig hafa tölur um rekstarafgang af rekstri íbúðahúsnæðis verið endurskoðaðar yfir tímabilið 1999-2014, með hliðsjón af áður birtum tölum yfir reiknaða húsaleigu í einkaneyslunni. Auk ofangreindra breytinga er notast við endurskoðaðar tölur um nettólaun frá útlöndum yfir tímabilið 2012-2014 og óbeint mælda fjármálaþjónustu (FISIM) yfir sama tímabil.“