Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur nú lokið afgreiðslu á frumvarpi Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um námslán og námsstyrki til annarar umræðu, og hefur verið lögð til sú breyting á málinu að námsaðstoð verði fyrirframgreidd og greidd út mánaðarlega, óski námsmenn eftir því.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu til fjölmiðla.
Einnig hefur verið lagt til að vextir verði að hámarki 2,5% að viðbættu 0,5% álagi, að veitt verði aukið svigrúm til doktorsnáms og að heimilt sé að afskrifa afborganir af námslánum þeirra sem verða óvinnufærir vegna slyss eða veikinda. Einnig verður Lánasjóði íslenskra námsmanna skylt að veita nákvæmar upplýsingar um stöðu lána með reglulegum hætti, að því er segir í tilkynningunni.
Nánari útlistun á breytingunum má sjá hér að neðan.
· Fyrirframgreiðsla námsaðstoðar: Helsta breytingin sem lögð hefur verið til í meðförum nefndarinnar er að námsmenn geti óskað eftir samtímagreiðslu námsaðstoðar. Um er að ræða mánaðarlega fyrirframgreiðslu námsaðstoðar fyrir allt að 22 ECTS einingum á hverju missiri. Mismunur á þegar greiddri námsaðstoð og námsaðstoð miðað við námsframvindu verður greiddur í lok annar. Ekki er veitt fyrirframgreiðsla á fyrsta missiri hvers námsmanns.
· Vextir verði breytilegir: Þá verða teknir upp breytilegir vextir á námslánum með 2,5% vaxtaþaki. Einnig verður sett hámark á álag til að mæta afföllum, sem verður 0,5%. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna verður heimilt að ákveða lægri vexti í úthlutunarreglum að teknu tilliti til meðalfjármögnunarkjara sjóðsins hjá lánveitendum sínum á hverjum tíma.
· Aukið svigrúm fyrir doktorsnema: Hafi námsmaður fullnýtt rétt sinn til námsaðstoðar skv. frumvarpinu getur hann sótt um undanþágu til LÍN fyrir allt að 60 ECTS einingum til viðbótar. Með því er komið til móts við takmarkaðan hóp doktorsnema sem fullnýtir rétt sinn til námsaðstoðar, til dæmis í bakkalár og meistaranámi, og leggur síðan stund á doktorsnám sem hvorki er launað né styrkt með öðrum hætti.
· Afskriftir fyrir þá sem verða óvinnufærir vegna slyss eða sjúkdóms: Þá er lagt til að tekin verði upp heimild til þess að afskrifa afborganir þeirra sem verða fyrir verulegum fjárhagsörðugleikum vegna óvinnufærni sökum slyss, sjúkdóms eða af öðrum sambærilegum ástæðum hafi þeir fullnýtt frestun á endurgreiðslum. Afskrift tekur til allra afborgana sem falla til á meðan viðkomandi er óvinnufær.
· Aukin upplýsingaskylda Lánasjóðs íslenskra námsmanna: Kröfur til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um upplýsingagjöf verða auknar. Sjóðnum verður skylt að bjóða upp á viðmót til þess að væntanlegir lántakar geti aflað sér upplýsinga um mögulega greiðslubyrði af námslánum sínum, til dæmis með reiknivél á vefsíðu sjóðsins. Þá verður sjóðnum gert að upplýsa lánþega með reglubundnum hætti um stöðu þegar tekinna lána og væntanlega greiðslubyrði miðað við stöðu þeirra.
· Kannaðir verði skattalegir hvatar fyrir námsmenn sem flytja út á land: Einnig er lagt til að skipaðir verði tveir starfshópar í kjölfar gildistöku á frumvarpinu. Sá fyrri til þess að gera tillögur að skattalegum hvötum til handa námsmönnum sem flytja út á land að námi loknu, eins og er til dæmis gert í Noregi. Seinni starfshópnum er ætlað að endurskoða lög um námsstyrki nr. 79/2003 og kanna samspil þeirra laga við lög um námslán og námsstyrki.
Breytingarnar hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, einkum upptaka á samtímagreiðslum námslána sem kallar á tilfærslu á kostnaði á milli ára. Gert er ráð fyrir að einskiptiskostnaður vegna samtímagreiðslna nemi tæplega 5 milljörðum króna, en allsherjar- og menntamálanefnd hefur lagt til að fjáraukalögum verði breytt til samræmis.