Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins og annar oddvita hans í Reykjavík í komandi kosningum, segir að nú þegar tæpir tveir sólarhringar séu til flokksþings Framsóknarflokksins hljóði dagskrá þingsins þannig að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins, sé ætlað klukkustund til ræðuhalda. Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra og varaformanni flokksins, er hins vegar ekki ætluð ein einasta mínúta í dagskránni, en hann hefur boðið sig fram gegn Sigmundi Davíð. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Karl, sem er yfirlýstur stuðningsmaður Sigurðar Inga, að enn sé tími til að gera breytingar þannig að sanngirnis sé gætt.
Stöðuuppfærslan stuðaði marga Framsóknarmenn sem tjáðu sig um að þetta ætti ekki erindi á opinberan vettvang og deilt um hverjir fari með með skipulagningu þingsins.
Karl svaraði með nýrri færslu. Þar segir: „Stundum er rétt að hafa staðreyndir á hreinu.Ýmsir Framsóknarmenn hafa gert athugasemdir við færslu mína þar sem hvatt er til að Sigurður Ingi fái jafnlangan tíma til ræðuhalda á flokksþingi. Framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins ákveður dagskrá flokksþings. Formaður þess heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann hefur neitað að halda þar fundi lengi. Ritari flokksins, Eygló Harðardóttir hefur ekkert með dagskrá þingsins að gera. Hún er fomaður landsstjórnar sem sér um að boða miðstjórnarfundi og fer með vald miðstjórnar milli funda hennar.Í kvöld hefur verið boðað til landsstjórnarfundar þar sem framkvæmdastjórnin sinnir ekki starfi sínu.“
Flokksþing Framsóknarflokksins fer fram um helgina. Formannskosning, þar sem Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi keppast um formannsstólinn, lýkur á sunnudag.