Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir það ekkert nýtt að andstæðingar flokksins séu andsnúnir honum eða vilji jafnvel losna við hann. „Ég þarf kannski fyrst að hafa áhyggjur ef það breytist.“ Þetta kemur fram á vef RÚV. Tvær kannanir sem birtust í morgun sýndu að Framsóknarmenn vilja frekar Sigmund Davíð sem formann en Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra, sem boðið hefur sig fram gegn honum. Í annarri þeirra kom hins vegar fram að mun fleiri voru líklegri til að kjósa Framsóknarflokkinn með Sigurð Inga í brúnni en Sigmund Davíð.
Í frétt RÚV segir Sigmundur Davíð að Framsóknarflokkurinn láti ekki andstæðinga flokksins velja fyrir sig formann. „ Þannig að það er ákveðin hvatning í þessum niðurstöðum en breytir ekki því að maður þarf að vinna vel fram að flokksþingi og á flokksþinginu og í framhaldi að því til þess að sameina flokkinn.”
Á Vísi.is segir Sigmundur Davíð að hann hafi ekki leitt hugann að því hvað taki við að loknu formannskjöri fari svo að hann tapi. Þá svarar hann því ekki hvort hann muni þá styðja Sigurð Inga sem formann.
Sigurður Ingi hefur ekki tjáð sig um kannanirnar. Hann setti hins vegar stöðuuppfærslu á Facebook fyrr í dag þar sem hann tjáði sig um formannskjörið sem framundan er.
Tvær kannanir
Í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið og sagt var frá í morgun kom fram að 52 prósent Framsóknarmanna vill hafa Sigmund Davíð áfram sem formann flokksins en 37 prósent þeirra vill fá Sigurð Inga í það embætti. 11 prósent vilja að Lilja Alfreðsdóttir verði næsti formaður Framsóknarflokksins. Þegar svör stuðningsmanna allra flokka eru skoðuð þá nýtur Sigurður Ingi hins vegar yfirburðarstuðnings og 47 prósent segjast vilja hann sem formann Framsóknarflokksins. Þar er Lilja í öðru sæti með 25 prósent en einungis tíu prósent vilja Sigmund Davíð sem formann. Athygli vekur að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks, sem situr í ríkisstjórn, eru ekkert sérstaklega hrifnir af Sigmundi Davíð. 42 prósent þeirra vilja Sigurð Inga sem næsta formann Framsóknarflokksins, 30 prósent vilja Lilju í það embætti en einungis 23 prósent Sigmund Davíð.
Fréttablaðið birtir einnig niðurstöðu annarrar könnunar Gallup sem gerð var um stöðu mála innan Framsóknarflokksins að undirlagi stuðningsmanna Sigurðar Inga. Athygli vekur að könnunin er gerð daganna 15. til 26. september en Sigurður Ingi lýsti ekki yfir formannsframboði fyrr en föstudaginn 23. september. Því voru stuðningsmenn hans sem stóðu að könnuninni farnir af stað með hana mörgum dögum áður en að sú yfirlýsing var gefin út.
Samkvæmt niðurstöðu hennar er mun líklegra að fólk kjósi Framsóknarflokkinn ef Sigurður Ingi verður formaður hans en ef Sigmundur Davíð verður það áfram. Þar segjast rúmlega 40 prósent aðspurðra að þeir væru líklegri til að kjósa Framsókn ef Sigurður Ingi væri formaður en einungis 8,6 prósent ef Sigmundur Davíð hefur áfram sem slíkur. Sigmundur Davíð nýtur þó einnig meiri stuðnings á meðal almennra Framsóknarmanna í þessari könnun en Sigurður Ingi, þó afar mjótt sé á munum. 49 prósent þeirra segja að þeir styðji hann en 45 prósent Sigurð Inga og sjö prósent segjast óákveðnir. Úrtakið í könnun stuðningsmanna Sigurðar Inga var 1.436 manns. 800 svöruðu en 636 vildu ekki svara.