52 prósent Framsóknarmanna vill hafa Sigmund Davíð Gunnlaugsson áfram sem formann flokksins en 37 prósent þeirra vill fá Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra, í það embætti. 11 prósent vilja að Lilja Alfreðsdóttir verði næsti formaður Framsóknarflokksins. Þegar svör stuðningsmanna allra flokka eru skoðuð þá nýtur Sigurður Ingi hins vegar yfirburðarstuðnings og 47 prósent segjast vilja hann sem formann Framsóknarflokksins. Þar er Lilja í öðru sæti með 25 prósent en einungis tíu prósent vilja Sigmund Davíð sem formann. Athygli vekur að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks, sem situr í ríkisstjórn, eru ekkert sérstaklega hrifnir af Sigmundi Davíð. 42 prósent þeirra vilja Sigurð Inga sem næsta formann Framsóknarflokksins, 30 prósent vilja Lilju í það embætti en einungis 23 prósent Sigmund Davíð.
Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið og sagt er frá í blaði dagsins. Könnunin gerð dagana 21. til 28. september og hófst því tveimur dögum áður en Sigurður Ingi tilkynnti í beinni í útsendingu í kvöldfréttum RÚV á föstudag að hann ætlaði að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð.
Mun fleiri myndu kjósa Framsókn með Sigurð Inga í brúnni
Fréttablaðið birtir einnig niðurstöðu annarrar könnunar Gallup sem gerð var um stöðu mála innan Framsóknarflokksins að undirlagi stuðningsmanna Sigurðar Inga. Athygli vekur að könnunin er gerð daganna 15. til 26. september en Sigurður Ingi lýsti ekki yfir formannsframboði fyrr en föstudaginn 23. september. Því voru stuðningsmenn hans sem stóðu að könnuninni farnir af stað með hana mörgum dögum áður en að sú yfirlýsing var gefin út.
Samkvæmt niðurstöðu hennar er mun líklegra að fólk kjósi Framsóknarflokkinn ef Sigurður Ingi verður formaður hans en ef Sigmundur Davíð verður það áfram. Þar segjast rúmlega 40 prósent aðspurðra að þeir væru líklegri til að kjósa Framsókn ef Sigurður Ingi væri formaður en einungis 8,6 prósent ef Sigmundur Davíð hefur áfram sem slíkur. Sigmundur Davíð nýtur þó einnig meiri stuðnings á meðal almennra Framsóknarmanna í þessari könnun en Sigurður Ingi, þó afar mjótt sé á munum. 49 prósent þeirra segja að þeir styðji hann en 45 prósent Sigurð Inga og sjö prósent segjast óákveðnir. Úrtakið í könnun stuðningsmanna Sigurðar Inga var 1.436 manns. 800 svöruðu en 636 vildu ekki svara.