Frumvörp sem leggja til breytingar á verðtryggingu og stuðning til kaupa á fyrstu íbúð hafa verið afgreidd úr efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Meirihluti nefndarinnar hefur lagt til að bæði frumvörpin taki smávægilegum breytingum, en Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þar með meirihlutans, skilaði minnihlutaáliti í báðum málum. Það gerði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, líka með stuðningi Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata.
Vilhjálmur segir í áliti sínu að „bæði þessi frumvörp virðast byggjast á áliti nefndar sem í voru sérfræðingar. Það er margt í því nefndaráliti sem stenst ekki skoðun. Þar er til dæmis ekki fjallað um tvö grundvallarhugtök fjármálafræðinnar, ávöxtunarkröfu og núvirðingu. Samanburður á greiðsluferlum í áliti þessarar svokölluðu „sérfræðinganefndar“ er algerlega marklaus.“
Hann gagnrýnir að stjórnvöld geri þá kröfu að fólk geti ráðstafað séreignalífeyri sínum inn á óverðtryggð lán en ekki verðtryggð lán, auk þess sem hann gerir miklar athugasemdir við að ekkert sé skilgreint hvað séu óverðtryggð lán. „Í stuttu máli er mismunur svokallaðra „verðtryggðra“ og „óverðtryggðra“ lána eftirfarandi: Vextir „verðtryggðra lána“ eru ákvarðaðir með hlutlægri mælingu, þ.e. verðbótaþátturinn, en vextir „óverðtryggðra lána“ eru ákvarðaðir með ágiskun um horfur á hverjum tíma og lánveitandi einn tekur ákvörðun um breytileika með ógagnsæjum hætti.
Sem fyrr segir er niðurstaðan sú að á liðnum 25 árum hafa svokölluð „óverðtryggð lán“ borið 0,5–1% hærri ávöxtunarkröfu en „verðtryggð lán“. Bjánaskapur þessa frumvarps gagnast því engum nema lánastofnunum.“
Hann segir tilgang frumvarpsins sem á að banna 40 ára verðtryggð lán til sumra hópa vera þann „að koma í veg fyrir að venjulegt fólk geti tekið lán að eigin vali og að ganga freklega á samningsrétt neytenda sem lántaka og lánveitenda. Í frumvarpinu er löng og alls óskiljanleg umfjöllun um eitthvað sem kallað hefur verið „Íslandslán“, að því er virðist í háðungar- og lítilsvirðingarskyni. Það eitt og sér á að duga til að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar.“ Hann gagnrýnir meirihluta nefndarinnar harðlega, og segir gengið langt inn á eðlilegt samningsfrelsi með frumvarpinu. Frumvarpið muni að auki ekki taka á neinum vanda, heldur kunni að skapa fjöldann allan af nýjum vandamálum.
Fyrst og fremst sáttaleið í augljósum ágreiningi ríkisstjórnarflokka
„Í stuttu máli sagt endurspegla umsagnir og mál þeirra gesta sem komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar óljós markmið frumvarpsins og algjörlega er óvíst hvort þær leiðir sem lagðar eru til skili nokkrum árangri í að ná hinum óljósu markmiðum. Niðurstaða undirritaðrar er að frumvarpið sé fyrst og fremst leið til ná sáttum í augljósum skoðanaágreiningi stjórnarflokkanna um verðtrygginguna en það sé enn á huldu hvaða áhrif ákvæði þess muni hafa. Enn fremur er ljóst að fortakslaust loforð Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar verður ekki efnt með þessu máli,“ segir Katrín Jakobsdóttir um verðtryggingarfrumvarpið.
Hún segir að málin tvö hafi verið kynnt með mikilli viðhöfn í Hörpu en við skoðun og rýni á þeim komi í ljós að þau dugi skammt til að uppfylla yfirlýst markmið. Um frumvarpið um fyrstu fasteign segja þau Katrín og Guðmundur Steingrímsson, auk Birgittu Jónsdóttur áheyrnarfulltrúa, að „flumbruganginn mætti fyrirgefa ef ekki skini í gegn sú augljósa stefna ríkisstjórnarinnar að nýta sameiginlega sjóði skattgreiðenda til að mismuna ólíkum tekjuhópum þannig að þeir tekjuhærri fái hærri skattafslátt en hinir tekjulægri og þar með hærra hlutfall af opinberu fé í húsnæðisstuðning. Þetta er algjör stefnubreyting frá því húsnæðisstuðningskerfi sem um langt skeið hefur ríkt sæmileg sátt um.“ Þau segja að nú hafi vaxtabótakerfið verði skorið niður en á móti lagðar til aðgerðir sem beinlínis auki mismunun og ójöfnuð. „Fyrst og fremst mun þetta verða ráðstöfun opinbers fjár til tekjuhærri hópa. Það hlýtur að teljast afar óskynsamleg ráðstöfun á skattfé.“
Málin eru bæði á dagskrá þingfundar í dag.