Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi ákvað í gær að færa Bryndísi Haraldsdóttur í annað sætið á framboðslista flokksins. Eini frambjóðandinn sem verður fyrir ofan hana verður Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Bryndís lenti í fimmta sæti í prófkjöri flokksins 10. september síðastliðinn. Fyrir ofan hana voru fjórir karlar og var niðurstaðan harðlega gagnrýnd víða. Þingmaðurinn Jón Gunnarsson færist við breytinguna niður í þriðja sæti listans, sem hann var í árið 2013 líka. Í fjórða sæti verður Óli Björn Kárason varaþingmaður og Vilhjálmur Bjarnason þingmaður færist niður í fimmta sætið. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fimm þingmenn í kosningunum 2013. Þá sat Ragnheiður Ríkharðsdóttir í öðru sæti listans og Elín Hirst í því fimmta.
Tvo neðstu sætin á listanum verða baráttusæti miðað við stöðu flokksins í könnunum og í ljósi þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður kjördæmisins, er nú í framboði fyrir Viðreisn. Því hafa líkurnar á að minnsta kosti Vilhjálmur Bjarnason nái aftur inn á þing snarminnkað við breytingarnar á listanum.
Ljóst er að breytingarnar eru gerðar til að bæta stöðu kvenna í efstu sætum á lista Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn fékk mikla gagnrýni á sig í kjölfar prófkjara sinna í Kraganum og í Suðurkjördæmi, en þar sitja karlar í þremur efstu sætunum í kjördæmi þar sem flokkurinn hefur í dag þrjá þingmenn. Í prófkjörunum tveimur var þremur þingkonum, þar af einum ráðherra og fyrrverandi oddvita, hafnað. Um er að ræða Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Unni Brá Konráðsdóttur og Elínu Hirst. Auk þess skipuðu konur flest baráttusætiflokksins fyrir komandi kosningar.
Helga Dögg Björgvinsdóttir, Jarþrúður Ásmundsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir sögðu sig í kjölfarið úr Sjálfstæðisflokknum, en þær eru núverandi og tveir síðustu formenn Landssambands sjálfstæðiskvenna. Í yfirlýsingu sögðust þær ekki eiga „samleið með flokki sem skilar af sér niðurstöðum úr prófkjöri eins og þeim sem við höfum nýverið séð.“ Helga Kristín Auðundsdóttir, varaformaður Landssambandsins, fylgdi í fótspor þeirra skömmu síðar.