LOGOS lögfræðiþjónusta, sem vann lögfræðiálit fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið vegna frumvarps um að heimila Landsneti að leggja raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka, hefur einnig unnið umtalsvert fyrir Landsnet á undanförnum árum. Ráðuneytið segist hafa vitað af því að LOGOS hafi unnið fyrir Landsnet en að það telji ekki að um hagsmunaárekstur sé að ræða.
Þetta kemur fram í svari iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Hörð gagnrýni stjórnarandstöðu
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála stöðvaði framkvæmdir vegna lagningu á raflínu frá Þeistareykjum og Kröflusvæðinu að iðnaðarsvæðinu á Bakka í ágúst. Ástæðan var kæra Landverndar vegna málsins. Niðurstaða nefndarinnar á að liggja fyrir um miðjan október.
Það þótti hins vegar of langur tími til að bíða eftir slíkri niðurstöðu og því ákvað ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp um að kæruferlið yrði stöðvað og framkvæmdum áframhaldið. Það frumvarp var afgreitt úr atvinnuveganefnd í vikunni.
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt frumvarpið harðlega. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna og fyrrverandi umhverfisráðherra, sagði til að mynda á Alþingi á fimmtudag að hún teldi að frumvarpið brjóti gegn stjórnarskrá Íslands og alþjóðlegum skuldbindingum. Þar kom einnig fram að hún gefi lítið fyrir lögskýringar ríkisstjórnarinnar í málinu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, svaraði því til að við undirbúning málsins hafi verið fengið utanaðkomandi lögfræðiálit frá „einni stærstu lögfræðistofu hérlendis, LOGOS.“
„Ragnheiður Elín sagði að „samkvæmt þeim upplýsingum og álitum sem við öfluðum okkur þá er þarna ekki um möguleg brot á þessum samningsskuldbindingum. Þessi lögfræðistofa tók enn fremur að sér að skoða þetta með tilliti til stjórnarskrárinnar og komst að sömu niðurstöðu, að þarna væri ekki verið að brjóta stjórnarskrá.“
Vissu af vinnu LOGOS fyrir Landsnet
LOGOS lögmannsþjónusta hefur veitt Landsneti, því fyrirtæki sem er að leggja umræddar raflínur að Bakka, víðtæka ráðgjöf og lögfræðiþjónustu á undanförnum árum. Á heimasíðunni Legal500 segir meðal annars í texta frá LOGOS að stofan hafi verið ráðgjafi Landsnets við kaup og lagningu neðanjarðarraflína.
Þá varði lögmaður frá LOGOS Landsnet í máli sem snerist um raforkuafhendingufyrir Hæstarétti í sumar.
Kjarninn beindi fyrirspurn til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins vegna þess að LOGOS hafi var fengið til að vinna lögfræðimatið sem er fylgiskjal með frumvarpinu sem heimilar Landsneti að halda áfram vinnu við að leggja raflínur að iðnaðarsvæðinu Bakka.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að það hafi vitað að LOGOS hafi veitt Landsneti ýmsa lögfræðiþjónustu á undanförnum árum og tiltekið er að aðrar lögfræðistofur hafi einnig unnið verkefni fyrir Landsnet. „Ráðuneytið hefur áður leitað til LOGOS með ýmis lögfræðileg úrlausnarefni og ber fullt traust til faglegra vinnubragða hjá LOGOS og hlutlausrar lögfræðiráðgjafar. LOGOS er stærsta lögmannsstofa landsins og hefur um langt skeið unnið verkefni fyrir fjölda fyrirtækja og stofnana í landinu. Hin lögfræðilega álitsgerð LOGOS sneri að mati á stjórnskipulegum atriðum, afturvirkni og mati á alþjóðlegum samningum. Því þurfti lögmannstofu með breiða þekkingu og sérfróðra aðila á sínum snærum til að taka slíkt verkefni að sér og að fenginni reynslu treysti ráðuneytið LOGOS til að taka slíkt mat að sér.“
Í svarinu segir enn fremur að fulltrúar LOGOS hafi verið kallaðir á fund atvinnuveganefndar til að fara yfir lögfræðiálitið. Þar hafi þeir verið sérstaklega spurðir út í mögulega hagsmunaárekstra við gerð matsins vegna þess að LOGOS hefði unnið fyrir Landsnet. „Á fundinum kom fram að ávallt sé gætt að því í innri verkferlum hjá LOGOS að hagsmunir skarist ekki og að lögfræðiráðgjöf sé ávallt hlutlaus og fagleg. Í þessu tilviki hafi þannig t.d. sá lögmaður og eigandi hjá LOGOS sem var ábyrgur fyrir umræddu lögfræðiáliti ekki komið að verkefnum fyrir Landsnet áður.“