Stjórn Borgunar hefur ákveðið að allir starfsmenn fyrirtækisins fá greidda launauppbót, eða bónus, sem nemur 900.000 kr á hvern starfsmann. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
„Vill Borgun með þessu að starfsmenn njóti þess vaxtar og viðgangs sem orðið hefur á rekstri fyrirtækisins síðustu misseri, sem er ekki síst mikilli og góðri vinnu starfsfólks að þakka,“ segir í tilkynningunni.
Í henni segir ennfremur að mikið álag hafi verið á starfsmönnum Borgunar um nokkurt skeið, enda fyrirtækið aukið verulega viðskipti sín á erlendum mörkuðum síðustu mánuði sem hefur skilað sér með margvíslegum hætti inn í rekstur fyrirtækisins.
Telur stjórn Borgunar ánægjulegt að starfsfólk fyrirtækisins njóti þess með áðurnefndri bónusgreiðslu.
Stærsti eigandi Borgunar er Íslandsbanki, með meira en 60 prósent hlut, en bankinn er 100 prósent í eigu ríkisins.
Eins og kunnugt er hafa viðskipti með hlutabréf í Borgun verið umdeild. Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að höfða mál fyrir dómstólum vegna sölunnar á 31,2 prósent eignarhlut bankans í Borgun hf. á árinu 2014. Það er mat bankaráðs að bankinn hafi farið á mis við fjármuni í viðskiptunum þar sem bankanum voru ekki veittar nauðsynlegar upplýsingar.Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankans.
Landsbanki Íslands, sem íslenska ríkið á, sendi frá sér fréttatilkynningu í nóvember 2014 þar sem fram kom að Steinþór Pálsson bankastjóri, hefði undirritað samning um sölu á 31,2 prósent eignarhlut í Borgun. Kaupverðið á hlutnum var tæplega 2,2 milljarðar króna og var kaupandi hlutarins Eignarhaldsfélag Borgunar Slf. þar sem stjórnendur Borgunar voru meðal hluthafa.
Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt, en Magnús Magnússon, forsvarsmaður félagsins, var sá sem setti sig í samband við Landsbanka Íslands og sýndi áhuga á kaupum á hlut Landsbankans.