Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson fluttu ræður á flokksþingi Framsóknarflokksins í Háskólabíói í dag en þeir hafa báðir gefið kost á sér í kjöri til formanns flokksins. Kosið verður á morgun og munu úrslitin liggja fyrir um eða upp úr hádegi. Báðir fjölluðu um traust og samvinnu í ræðum sínum en nálguðust það frá mismunandi endum.
Sigmundur Davíð talaði sem formaður flokksins í nærri því klukkustund og fór vítt og breitt yfir áherslur flokksins, bæði sögulegar áherslur og þau málefni sem flokkurinn hefur barist fyrir undir forystu hans. Hann vísaði ítrekað í ræðu sem hann hélt á flokksþingi fyrir fimm árum og lagði áherslu á þá samstöðu sem hann sagði einkenna Framsóknarmenn þegar þeir standa frammi fyrir stórum og erfiðum verkefnum.
Sigmundur Davíð var einnig auðmjúkur í ræðu sinni og bað flokksmenn afsökunar á því að þeir hafi þurft að tala hans máli undanfarna mánuði. Vísaði hann þar til þess þegar hann sagði af sér sem forsætisráðherra og dró sig í hlé frá þingstörfum eftir að upp komst um að hann hafi átt félag í skattaskjóli ásamt eiginkonu sinni. „Ég er ekki óumdeildur stjórnmálamaður, og verð það líklega aldrei,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars.
Við hugsanlegar stjórnarmyndanir í kjölfar kosninganna í lok mánaðarins sagði Sigmundur Davíð að Framsókn vilji ekki bara fá að vera með, heldur taka þátt út frá styrkleika. Flokkurinn hefur verið að mælast með um og yfir 10 prósent fylgi í Kosningaspánni undanfarnar vikur. Í kosningunum árið 2013 hlaut flokkurinn 24,4 prósent fylgi og 19 þingmenn og gat myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Sigurður Ingi fjallaði um þann traustsmissi sem Framsóknarflokkurinn og forysta flokksins hefur orðið fyrir í kjölfar þess að upp komst um eignir Sigmundar Davíðs í aflandsfélagi. „Það hefur ýmislegt gerst síðan við komum saman síðast á flokksþingi,“ sagði hann og rak það hvernig hann hafi tekið það verkefni að sér að halda ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn áfram eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér.
Sigurður Ingi lagði áherslu á að til þess að geta haft áhrif á framvindu mála yrði flokkurinn að geta unnið með öðrum flokkum og aðrir flokkar að geta unnið með honum. „Við verðum að vera í aðstöðu til þess að hafa áhrif á framvindu mála,“ sagði hann og spurði síðan: „Hver er staðan nú í þeim efnum?“.
Sigmundur Davíð gaf sér rúm til þess að ræða hugsanleg stefnumál flokksins í komandi kosningum. Nefndi hann þar sérstaklega að hægt væri að setja tímabundin lög á hámarksraunvexti; að ríkið taki sér heimild til þess að ákveða á hvaða kjörum bankar og lífeyrissjóðir megi lána.