Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata, mælist nú með aukið forskot á Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana. Vefurinn Five Thirty Eight birtir uppfærða spá, sem byggir á upplýsingum úr skoðanakönnunum vítt og breitt frá ríkjum Bandaríkjanna, og telur hann nú að 69,2 prósent líkur séu á því að Hillary sigri í forsetakosningunum 8. nóvember.
Trump hefur átt í vök að verjast að undanförnu eftir fyrstu kappræður þeirra tveggja í sjónvarpi, en tvær kappræður eru ennþá eftir fram að kosningum. Áhorf á fyrstu kappræðurnar var mikið, en talið er að 100 milljónir manna í Bandaríkjunum hafi horft á þær, og augu umheimsins verið á þeim sömuleiðis.
Trump hefur verið harðlega gagnrýndur eftir kappræðurnar, og hafa skoðanakannanir sýnt að hann þurfi á hálfgerðu kraftaverki að halda til að ná sigri, eins og mál standa nú.
Kjarninn heldur úti vikulegum hlaðvarpsþætti, Kanavarpinu,
þar sem kafað er ofan í helstu deilumálunum í kosningunum. Umsjónarmenn eru
Hjalti Geir erlendsson, lögfræðingur og LLM frá Columbia í New York, og
Hallgrímur Oddsson, hagfræðingur og blaðamaður.
Töluverður vindur hefur farið úr seglum Trump, en áður en kappræðurnar hófust sýndu kannanir að líkurnar væru 52 prósent á sigri Hillary, en 48 prósent á sigri Trump.
Endaspretturinn í baráttunni er nú farinn af stað, og má búast við fjörugum rúmlega fjórum vikum sem frambjóðendur hafa til að stilla saman strengi og safna liði.