Þinglok og hvernig þeim verður háttað verða til umræðu á fundi þingflokksformanna og fundi forsætisnefndar Alþingis í hádeginu í dag. Þetta sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, á þingi í morgun. Hingað til hefur ekkert verið rætt við stjórnarandstöðuna um möguleg þinglok eða semja um það hvaða málum verði lokið fyrir þau. Endurskoðuð starfsáætlun þingsins rann út í síðustu viku.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar mótmæltu því harðlega við upphaf þingfundar í morgun að yfirhöfuð hafi verið boðaður þingfundur, þar sem starfsáætlun þingsins sé runnin út og engin áætlun í gildi. Þeir sögðu nánast enga stjórnarþingmenn vera í salnum, og margir þingmenn þurfi að komast í kosningabaráttu.
„Eins og okkur öllum er kunnugt um eru tvær starfsáætlanir Alþingis farnar í ruslakörfuna, hafa ekki staðist. Samkvæmt síðari áætluninni er þingfundum lokið. Það hefur ekki verið gerð nein ný áætlun um annað og því miður ekki heldur haft neitt samráð um annað,“ sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í upphafi þingfundarins. „Ég verð að gera alvarlegar athugasemdir við að boðað sé til þingfundar að lokinni starfsáætlun, án þess að það sé rætt í forsætisnefnd Alþingis eða við formenn þingflokka í þinginu. Þetta er lýðræðisstofnun. Henni er ekkert stjórnað með tilskipunum.“
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri-grænna, sagði svo að þetta væri ekki viðunandi umgengni við Alþingi. „Það er rétt að boðaður hefur verið fundur með þingflokksformönnum í hádeginu. En við erum án áætlunar. Það er engin áætlun gild um starfsemi Alþingis Íslendinga og það eru innan við fjórar vikur til alþingiskosninga. Við látum hér eins og allt sé eðlilegt, eins og við getum farið að hefja hefðbundinn þingfund með óundirbúnum fyrirspurnum o.s.frv. Það er ekki svo,“ sagði hún. „Tíminn er runninn út. Tími þessarar ríkisstjórnar er runninn út. Tími þingmeirihlutans er runninn út. Við þurfum að komast í kosningabaráttu.“
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagðist hafa skilning á því að ekki væri hægt að koma með starfsáætlun fyrr en það lægi fyrir hver yrði formaður Framsóknarflokksins. Það væri hins vegar óviðeigandi að setja á þingfund áður en búið væri að funda með þingflokksformönnum. „Mér finnst þetta bara ekki í lagi.“ Þingmenn stjórnarflokkanna væru úti í kosningabaráttu á meðan þingmenn stjórnarandstöðunnar væru inni í þingsal.
„Kosningabaráttan er hafin og þingmenn sumir hverjir þurfa að sinna stórum kjördæmum fjarri Reykjavík,“ sagði Brynhildur Pétursdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, og bætti því við að það væri mikill aðstöðumunur milli stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmanna í þessum kjördæmum.
Fundur þingflokksformanna mun hefjast klukkan 12 og fundur forsætisnefndar hefst 12:30.