„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var í gær felldur sem foringi Framsóknarflokksins. Aðalsigurvegarinn var „RÚV“ sem staðið hefur fyrir herferð gegn Sigmundi. Hinn var Sigurður Ingi.“ Þetta skrifar leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag. Ritstjórar Morgunblaðsins eru Davíð Oddsson, sem skrifar flesta leiðara blaðsins, og Haraldur Jóhannessen.
Sigmundur Davíð tapaði í gær formannskosningu í Framsóknarflokknum fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra. Morgunblaðið hefur í ritstjórnargreinum sínum ítrekað tekið undir þann málflutning Sigmundar Davíðs að Wintris-málið svokallaða, sem varð til þess að hann sagði af sér sem forsætisráðherra í apríl, hefði verið þaulskipulögð árás. Í leiðara blaðsins sama dag og Sigmundur Davíð sagði af sér, 5. apríl 2016, sagði m.a. um Kastljósþáttinn sem sýndur hafði verið tveimur dögum áður, og innihélt viðtal sænsks fréttamanns við þáverandi forsætisráðherra þar sem hann var spurður út í aflandseign sína, að skyndilega hafi runnið upp fyrir Sigmundi Davíð að hann væri „fórnarlamb ósvífins blekkingaleiks. Honum hafði í rauninni verið veitt fyrirsát og hann gengið í gildru.“
Þessi skoðun leiðarahöfunda Morgunblaðsins hefur síðar margoft verið endurtekin í skrifum þeirra.
Davíð skældi ekki yfir ræðutíma
Í leiðara dagsins er einnig sett fram gagnrýni á Sigurð Inga og þá fullyrðingu að hann hafi staðið sig vel sem forsætisráðherra. „Það mun helst hafa verið eftir að tilkynnt var um haustkosningar og ríkisstjórnin breytti sjálfri sér í starfsstjórn. Það gæti farið vel á því að stjórnmálafræðingar háskólanna könnuðu nú hver af þeim 29 mönnum, sem gegnt hafa embætti forsætisráðherra á Íslandi, hafi staðið sig best sumarmánuðina á valdaskeiðinu. Þótt þessi sumarafrek Sigurðar Inga, sem gott væri að fá nánari fréttir af, hafi hjálpað honum til að leggja Sigmund, þá dró þó drýgst að kveinka sér undan því að fá aðeins 15 mínútna ræðutíma en formaður hefði talað í 60. Árið 1991 fór fram kosning um formann í öðrum flokki og formaðurinn þar talaði svo sem í hefðbundinn klukkutíma og áskorandinn kannski fimmtung af því. Sá hafði ekki rænu á að skæla yfir því, enda var farið eftir leikreglum, rétt eins og hjá Framsókn nú.“
Kosningarnar sem leiðarahöfundur vísar í eru formannskosningar í Sjálfstæðisflokknum 1991 þegar þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, Davíð Oddsson, bauð sig fram gegn sitjandi formanni Þorsteini Pálssyni og hafði sigur.