Úrslitin í formannskjöri Framsóknarflokksins voru „gífurleg vonbrigði“ og aðdragandinn að þeim „enn ömurlegri á alls konar máta og hefur vakið upp ýmsar vondar tilfinningar sem mun taka langan tíma að vinna á.“ Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, fyrrverandi aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formanns flokksins. Hann skrifar um málið á Facebook-síðu sína.
Sigmundur Davíð hefur sjálfur ekki tjáð sig opinberlega frá því að hann yfirgaf flokksþing Framsóknarflokksins á sunnudag eftir að ljóst var að hann tapaði fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í formannskjörinu.
„Ég er afskaplega stoltur af því að hafa fengið að taka þátt í þessum ótrúlega rússíbana síðustu ára með Sigmundi og öðrum vinum og félögum. Með þeim hef ég fengið að taka þátt í ótrúlegum afrekum sem hafa verið unnin fyrir land og þjóð. Án Sigmundar hefðu flest þeirra orðið minni og þau stærstu alls ekki orðið,“ segir Jóhannes Þór. „Nú tekur brátt við nýr tími með nýjum áskorunum hjá mér. Og það er þrátt fyrir allt alltaf spennandi.“