Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að það komi til greina að kvarta til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) ef ríkisstjórnarflokkarnir halda áfram kosningabaráttu á meðan minnihlutinn sinnir þingstörfum.
Hann segir stjórnarmeirihlutann ekki sinna lagaskyldum sínum um að vera í þinginu, heldur sé hann að heyja kosningabaráttu, á meðan að stjórnarandstaðan sé bundin þar. Þessi staða skekki samkeppni þeirra á milli í aðdraganda kosninga. „Stjórnarflokkar sem halda þinginu áfram þrátt fyrir að starfsáætlun sé búin, hirða ekki um að sinna lagaskyldum um að vera sjálfir í þinginu, til þess eins að hafa áhrif á möguleika stjórnarandstöðu til að fara í kosningabaráttu, þeir eru ekki að uppfylla lýðræðislegar grundvallarreglur[...]Ef menn sjá ekki hvers konar rugl er hér í gangi þá blasir það við að við verðum að biðja ÖSE um að senda hingað kosningaeftirlit sambærilegt því sem þekkist í löndum sem við viljum helst ekki bera okkur saman við.“ Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Engin lausn í sjónmáli
Engin niðurstaða liggur fyrir um þinglok og mörg stór mál bíða enn afgreiðslu. Kosningar fara fram laugardaginn 29. október. Ríkisstjórnin fundaði með stjórnarandstöðuleiðtogum í gærmorgun þar sem þess var krafist að samningum yrði lokið þann daginn.
Ríkisstjórnin fundaði síðan sjálf í gær um málið án þess að það orðið til þess að lausn lægi fyrir og því hefur verið boðað aftur til þingfundar í dag.
Rangheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir við Morgunblaðið að hún hafi fulla trú á því að forystumenn ríkisstjórnarinnar ljúki viðræðum við stjórnarandstöðuna um þau mál sem skipti máli fyrir þjóðina að klára núna.