Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, segir að það hafi komið mjög á óvart að tapa formannskosningunum í flokknum á sunnudag. „Þetta leit ágætlega út á laugardeginum og ég var ekkert sérstaklega áhyggjufullur[...]Svo allt í einu, þegar kominn var sunnudagur og klukkan orðin ellefu, þá komu rúturnar og út úr þeim streymdi fjöldi fólks sem ég hef hreinlega aldrei séð áður, í störfum mínum í flokknum. Og staðan breyttist mjög skyndilega.“ Þetta kom fram í fyrsta viðtalinu sem Sigmundur Davíð hefur veitt eftir tap hans í formannskosningunum á sunnudag, við Ísland í Bítið á Bylgjunni í morgun.
Þar sagði hann einnig að hann hafi ekkert rætt við Sigurð Inga Jóhannsson, nýjan formann flokksins, eftir að formannskosningum lauk á sunnudag. Enn sé kalt á milli þeirra og að Sigurður Ingi hafi ekki viljað tala við sig í aðdraganda formannskosninganna, þegar eftir því var leitað.
Aðspurður vildi Sigmundur Davíð þó ekki fullyrða að svindlað hefði verið í formannskosningunum, en sagði margt hafa verið öðruvísi en það hefði átt að vera. „.Það eru mjög margir búnir að hafa samband við mig og látið mig vita að þeir hafi ætlað að styðja mig í kosningunum, og þeim leyft að innrita sig á flokksþingið, en svo ekki leyft að kjósa.“
Sigmundur Davíð lýsti því yfir í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að hann ætlaði að halda áfram sem oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi þrátt fyrir tapið. Hann sagði við Bítið að hann hlakki nú til að geta unnið fyrir sitt kjördæmi og að eftirláta öðrum „stóru myndina, landsmálamyndina.“
Forsætisráðherrann fyrrverandi, sem sagði af sér því embætti 5. apríl síðastliðinn vegna Wintris-málsins svokallaða, boðaði að hann yrði í ítarlegra viðtali á Bylgjunni síðar í dag, við þáttinn Reykjavík síðdegis.