Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda meginvöxtum sínum óbreyttum. Þeir verða því áfram 5,25 prósent. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennarsem birt var í morgun. Það rökstyður hún m.a. með því að verðbólga hafi mælst töluvert hærri í september en í ágúst, en það gerði hún vegna mistaka Hagstofu Íslands í útreikningi vísitölu neysluverðs. Mistökin gerðu það að verkum að verðbólga var vanmetin í nokkra mánuði, frá mars og fram í ágúst.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að hækkun á verðbólgu í september endurspegli að hluta „leiðréttingu á skekkju í verðbólgumælingum Hagstofu Íslands á tímabilinu mars til ágúst sl. Ofspá Seðlabankans á verðbólgu fram eftir ári var því í raun minni en áður var talið. Verðbólguhorfur hafa þó líklega lítið breyst frá þeirri spá sem bankinn birti í ágúst enda hefur gengi krónunnar hækkað enn frekar og verðbólguvæntingar eru áfram við verðbólgumarkmiðið.
Líkur á vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum og óvissa í tengslum við losun fjármagnshafta kalla á varfærni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun því ráðast af efnahagsþróuninni og því hvernig tekst til við losun fjármagnshafta.“
Vextir lækkaðir í ágúst
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði vexti bankans um 0,5 prósentur í lok ágúst. Meginvextir bankans fóru þá úr 5,75 prósentum í 5,25 prósent. Meginvextir bankans höfðu haldist óbreyttir frá því að þeir voru hækkaðir í 5,75 prósent í nóvember 2015.
Seðlabankinn hafði þá legið undir ámæli fyrir að lækka ekki vexti í ljósi þess að verðbólga hafði nú verið undir verðbólgumarkmiði hans síðan í febrúar 2014. Ákvörðun peningastefnunefndarinnar hafði þau áhrif að breytilegir vextir viðskiptavina fjármálastofnanna lækkuðu og þau kjör sem þær bjóða nýjum lántakendum. Seðlabankinn rökstuddi ákörðun sína með því að verðbólguspár hefðu batnað.
Og flestir greiningaraðilar bjuggust við að vaxtalækkunarskeið væri hafið. Af því varð þó ekki.
Mistök Hagstofunnar
Í síðustu viku var greint frá því því að hjá Hagstofu Íslands hefði reiknuð húsaleiga verið vanmetin við útreikningi vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu. Þessi mistök voru leiðrétt með þeim afleiðingum að vísitalan hækkaði um tæp 0,5 prósent á milli mánaða og langt umfram allar opinberar spár. Þetta þýddi líka að 12 mánaða verðbólga hefur verið verulega vanmetin undanfarið hálft ár. Ársverðbólga, sem var 0,9 prósent í ágúst, mælist því 1,8 prósent í september.
Mistök Hagstofunnar hafa víðtæk áhrif. Þeir sem tekið hafa ný verðtryggð húsnæðislán á því tímabili sem þau ná yfir munu til að mynda þurfa að greiða uppsafnaðar verðbætur af lánum sínum. Þeir sem tóku lán í septembermánuði munu auk sjá þau hækka skarpar en annars hefði orðið. Þeir sem ætla sér að taka verðtryggð húsnæðislán þessa daganna ættu að bíða fram í nóvember hið minnsta svo þeir þurfi ekki að greiða uppsafnaðar verðbætur tímabils sem þeir voru ekki með lán, vegna mistaka Hagstofunnar. Þá mun húsaleiga þeirra sem er bundin við þróun vísitölu neysluverðs hækka um komandi mánaðarmót.