Eggert Skúlason, fyrrverandi ritstjóri DV, hefur verið ráðinn sem kosningastjóri Framsóknarflokksins í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi. Þar segist hann hafa tekið að sér stórt og spennandi verkefni sem hann hlakki til að takast á við. „Ég hef áður komið að kosningabaráttu fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsókn og einnig unnið með einstaklingum í Samfylkingunni. En þetta verður fjör og stuttur tími. Hlakka til að takast á við þetta verkefni. Eða eins og vinur minn sagði. "Þú ræðst aldrei á garðinn þar sem hann er lægstur."
Eggert hætti sem ritstjóri DV í byrjun júní á þessu ári. Hann sagði þá að það væri sameiginleg ákvörðun hans og eigenda Vefpressunar, útgáfufélags DV, að hann hætti sem ritstjóri. Eftir sumarfrí myndi hann koma til með að vinna að verkefnum fyrir útgáfuna, en það væri ekki alveg ljóst hvaða verkefni það verði.
Framsóknartengsl „helbert kjaftæði“
Eggert var ráðinn ritstjóri DV ásamt Kolbrúnu Bergþórsdóttur í lok árs 2014. Það gerðist í kjölfar þess að Vefpressan eignaðist blaðið. Eggert Skúlason starfaði á árum áður við fjölmiðlun, meðal annars á Stöð 2. Áður en hann varð ritstjóri DV hafði hann rekið eigið almannatengslafyrirtæki og meðal annars starfað fyrir kröfuhafa föllnu bankana. Fyrirtæki Eggerts. Franca ehf., var líka ráðið til að gera úttekt á DV eftir að nýir eigendur tóku við fjölmiðlinum haustið 2014. Starfsmenn DV sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu úttektina illa unna og að hún virtist að mestu byggja á skoðunum úttektarhöfunda sjálfra.
Eftir að Eggert var ráðinn ritstjóri voru uppi ásakanir um sterk tengsl hans við Framsóknarflokkinn. Eggert skrifaði stöðuuppfærslu á Facebook 5. janúar 2015 þar sem hann sagði m.a. að hann vildi fá að vita hver hefði skráð hann í Framsóknarflokkinn.
Í samtali við Vísi sama dag sagði Eggert að hann kannaðist ekkert við að vera skráður í Framsóknarflokkinn. „Ef ég ætti að velja einhver orð fyrir það myndi ég segja: Helbert kjaftæði.“
Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, er útgefandi DV. Félag í eigu Björns Inga tók nýverið yfir eignarhluti Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns og félagsins Tryggva Geirs ehf., í eigu Þorsteins Guðnasonar, í Pressunni ehf., aðaleiganda DV og fleiri miðla. Félagið, sem heitir Kringueignir ehf., er nú skráð fyrir 31,85 prósent hlut í Pressunni. Önnur félög sem eru í eigu Björns Inga og Arnars Ægissonar, framkvæmdastjóra Pressunnar, eiga 39,15 prósent í fyrirtækinu. Því eiga félög í eigu Björns Inga nú 71 prósent hlut í Pressunni, sem á 84,23 prósent hlut í DV.