Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir að stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hafi afritað stefnuskrá flokks síns. Hún spyr einnig hver það er sem fjármagni kosningaherferð Viðreisnar og gagnrýnir Þorstein Víglundsson, frambjóðanda Viðreisnar, fyrir að tala um „almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni“ þegar hann hafi beinlínis verið á launaskrá við að sinna sérhagsmunum sem framkvæmdastjóri Samáls og síðar framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins áður en hann ákvað að hefja stjórnmálaþátttöku. Þá fer hún fram á að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, útskýri hvernig hún hafi ekki verið að sinna sérhagsmunum umfram annarra „þegar hún sem ráðherra sinnti málefnum Kaupþings þar sem fjölskylda hennar fékk niðurfelld 2 milljarða króna kúlulán.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Bjartar á Facebook sem birt var í dag.
Í færslunni bregst Björt við stöðuuppfærslu Þorsteins frá því í gær, þar sem hann sagði: „Ég hef orðið var við að óprúttnir keppinautar okkar í Viðreisn hafa gert tilraun til að stela einkennisorðum okkar. Við því er það eitt að segja að fólki ber að varast lélegar eftirlíkingar, sama hversu bjartri framtíð er lofað.“
Björt segir að þegar Viðreisn hafi afritað stefnuskrá Bjartrar framtíðar sem samþykkt hafi verið fyrir fjórum árum hafi flokksmenn ekki sagt neitt annað en að gleðilegt væri að fleiri legðust á árarnar við að koma mikilvægum málum á framfæri. Þeir sem starfi í Bjartri framtíð hafi ekki litið á sig sem atvinnustjórnmálamenn eða flokkinn sem hagsmunaafl sem hverfist um þau sjálf, heldur hafi málefnin skipt öllu. Við ávirðingum Þorsteins segir hún: „Björt Framtíð var stofnuð árið 2012. Til þess að fjármagna kosningabaráttu okkar árið 2013 lagði þáverandi formaður flokksins hús fjölskyldu sinnar að veði, svo við hefðum fé til að prenta lágmarks bæklinga og kynningaefni. Þetta var okkar helsta kostunarleið. Við áttum ekki, og vildum ekki hafa stóra bakhjarla með sína sérhagsmuni til að kosta okkar framboð.
Í þessum kosningum hefur Björt Framtíð meðvitað tekið ákvörðun um að taka ekki við neinum peningum frá lögaðilum. Við tökum ekki lán fyrir kosningabaráttunni en eigum 13. 5 milljónir inni á bankareikningi sem eru lögbundin framlög og þau munu þurfa að duga.
Mér er spurn: Hver er það hjá Viðreisn sem að kostar öll flettiskiltin og auglýsingarnar um almannahagsmuni umfram sérhagsmuni?
Það er auðvitað ekki hvað við stjórnmálamenn segjum, heldur er það verkin okkar sem að skilgreina okkur og segja til um mannkosti og fyrirætlanir. Besta leiðin til þess að spá fyrir um hegðun og gjörðir okkar mannanna er að skoða hvað við höfum áður gert. Það er besta forspárgildið.
Í máli eftir máli á þingi hefur Björt framtíð barist með almannahagsmunum gegn sérhagsmunum. Við höfum barist fyrir erfiðum málum. Við höfum ekki keypt okkur inn á Alþingi með gylliboðum um ókeypis peninga. Þannig börðumst við á móti skuldaniðurfellingunni. Það eru alltaf skattgreiðendur sem borga. Við börðum á móti búvörulögunum og við berjumst á móti skattaívilnunum sem hafa nær eingöngu farið til álfyrirtækjanna.
Því er fáránlegt að heyra þennan málflutning núna frá frambjóðanda Viðreisnar sem að var beinlínis á launaskrá við að sinna sérhagsmunum .
Svo er nú annar frambjóðandi sem þarf nú virkilega að leggja lykkju á leið sína til þess að útskýra það hvernig hún hefuri ekki sinnt sínum sérhagsmunum umfram annarra þegar hún sem ráðherra sinnti málefnum Kaupþings þar sem fjölskylda hennar fékk niðurfelld 2 milljarða króna kúlulán. Hve oft vék hún af þingflokksfundum og af ríkistjórnafundum þegar málefni Kaupþings voru rædd?“