Fæðingarorlofsgreiðslur verða hækkaðar í 500 þúsund krónur frá og með 15. október næstkomandi. Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í dag, að tillögu Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra.
Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi eru nú 370 þúsund krónur, en verða hækkaðar í 500 þúsund krónur sem fyrr segir. Fæðingarstyrkur og lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka einnig.
Eygló hafði áður áformað að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um fæðingarorlof, sem byggði á tillögum starfshóps sem hún skipaði árið 2014 til að móta framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum málum. Samkvæmt því frumvarpi átti að hækka hámarksgreiðslur í 600 þúsund krónur, auk þess sem lengja átti fæðingarorlofið í áföngum. Þá liggur fyrir frumvarp inni í þinginu frá þingflokki Samfylkingarinnar þar sem lagt er til að hámarksgreiðslur hækki í 500 þúsund krónur, auk þess sem fæðingarorlof yrði lengt í áföngum. Það frumvarp hefur verið í velferðarnefnd þingsins frá því í mars.
Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu kemur fram að Eygló sé ánægð með að geta ráðist í þessa hækkun. Í ríkisfjármálaáætlun áranna 2016-2019 sé gert ráð fyrir að auka við einum milljarði króna til fæðingarorlofs á árunum 2017 – 2018 og eins hafi ákveðið svigrúm skapast þar sem greiðslur fæðingarorlofs og fæðingarsstyrkja á þessu ári verði nokkuð innan heimilda.
Kveðið verður á um þessar hækkanir með reglugerð, en ekki með lögum frá Alþingi eins og venjan er. Breytingarnar eiga að taka gildi 15. október, á laugardaginn eftir rúma viku, og gildir aðeins um foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur þann dag eða síðar.