Hagstofa Íslands vill ekki veita upplýsingar um hver vísitala neysluverðs hefði átt að vera þá mánuði sem hún reiknaði hana vitlaust. Í svari við fyrirspurn Kjarnans vegna þessa segir skrifstofustjóri efnahagssviðs Hagstofunnar að hún hafi hafnað því að veita upplýsingar af þessu tagi þar sem verklagsreglur stofnunarinnar geri ekki ráð fyrir því að Hagstofan birti formlega eða óformlega endurreiknaðar vísitölur.
29. september var greint frá því því að Hagstofan hefði gert þau mistök að
reiknuð húsaleiga hafði verið vanmetin við útreikningi vísitölu neysluverðs í mars, sem mælir verðbólgu. Þessi mistök voru í kjölfarið leiðrétt með þeim afleiðingum að vísitalan hækkaði um tæp 0,5 prósent á milli mánaða og langt umfram allar opinberar spár. Það þýddi líka að 12 mánaða verðbólga hafði verið verulega vanmetin undanfarið hálft ár. Ársverðbólga, sem var 0,9 prósent í ágúst, mældist því 1,8 prósent í september. Hagstofan hefur beðist afsökunar á mistökunum.
Höfðu víðtæk áhrif
Mistök Hagstofunnar höfðu víðtæk áhrif. Þeir sem tekið hafa ný verðtryggð húsnæðislán á því tímabili sem þau ná yfir munu til að mynda þurfa að greiða uppsafnaðar verðbætur af lánum sínum. Þeir sem tóku lán í septembermánuði munu auk sjá þau hækka hins vegar skarpar en annars hefði orðið. Þeir sem ætla sér að taka verðtryggð húsnæðislán þessa daganna ættu að bíða fram í nóvember hið minnsta svo þeir þurfi ekki að greiða uppsafnaðar verðbætur tímabils sem þeir voru ekki með lán, vegna mistaka Hagstofunnar. Þá mun húsaleiga þeirra sem er bundin við þróun vísitölu neysluverðs hækka um komandi mánaðarmót.
Áhrifin á skuldabréfamarkað strax eftir tilkynninguna voru einnig mikil og verðbólguálag hækkaði skarpt. Þá er ljóst að hluti þeirra forsenda sem nefndar voru fyrir vaxtalækkun Seðlabanka Íslands í ágúst voru nú brostnar og bankinn hélt vöxtum sínum óbreyttum við síðustu vaxtaákvörðun. Í skýringum sínum vísaði hann meðal annars til mistaka Hagstofunnar sem ástæðu.
Landsbankinn tilkynnti um síðustu helgi að hann ætli að leiðrétta lán um þúsund viðskiptavina sinna vegna mistaka Hagstofunnar. Kostnaður bankans vegna þessa nemur „nokkrum tugum milljóna króna“.