Landeigendur Geysis segjast hafa verið neyddir til sölu á svæðinu, en tilkynnt var um það í gær að ríkið hefði keypt tæplega tuttugu hektara land þeirra. Þetta segir Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður Landeigendafélags Geysis ehf., í samtali við Fréttablaðið í dag.
Hjörleifur og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirrituðu samning um kaup ríkisins á öllum eignarhluta landeigendafélagsins á Geysissvæðinu í gær. Kaupverðið hefur ekki verið ákveðið en samkvæmt samningnum verður það lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna.
Hjörleifur segir að salan hafi verið ill nauðsyn. „Okkur hafði verið tilkynnt að ef við gengjum ekki að samkomulaginu, þá yrði landið tekið eignarnámi. Það var mat landeigenda að með þessu móti hefðu þeir betri aðkomu til að tryggja rétt sinn varðandi verðmæti landsins.“
Svæðið innan girðingar á Geysi er um það bil. 19,9 hektarar að stærð. Innan þess svæðis á ríkið sem séreign um 2,3 hektara lands fyrir miðju svæðisins en þar eru hverirnir Geysir, Strokkur, Blesi og Óþverrishola. Það sem eftir stendurm um 17,6 ha., er í sameign ríkisins og Landeigendafélagsins. Ríkið hefur um margra ára skeið átt í viðræðum við sameigendur sína innan girðingar á Geysissvæðinu um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta þeirra og deilur hafa staðið yfir um rétt landeigendanna til að rukka inn á svæðið. Við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Þar með er ríkið orðið eigandi alls þess svæðis, en ríkið á þegar stóran hlut aðliggjandi landssvæða utan girðingar.
Garðar Eiríksson, talsmaður eigendafélagsins, segir rúmlega tveggja ára þrautagöngu að baki „þar sem skilningsleysi og vanhæfni stofnanaræðisins skein í gegn. Úr því þetta ekki ekki upp var alveg eins gott að íslenska þjóðin eignaðist landið og legði sitt skattfé í það.“ Hann segir skiptar skoðanir hjá landeigendum um söluna, enda sé þarna verið að þjóðnýta einstaklingseign til að „þjónusta græðgi ferðaþjónustunnar.“